Íslenski boltinn

Sturridge skoraði alveg eins mark og Gummi Ben | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge skoraði frábært mark fyrir Liverpool í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á St. Jakob-Park í Basel í gær.

Markið dugði ekki til sigurs en er engu að síður eitt af flottustu mörkum Evrópudeildarinnar á þessu tímabili.

Guðmundur Benediktsson var að lýsa úrslitaleiknum á Stöð 2 Sport og þar á meðal lýsti hann þessu stórglæsilega marki sem Daniel Sturridge skoraði í fyrri hálfleik.

Glöggir menn voru fljótir að rifja það upp þegar Guðmundur sjálfur skoraði svipað snilldarmark og Sturridge gerði í Basel í gær. Það þarf reyndar að fara aftur um sextán ár en þetta var svona mark sem menn gleyma ekki svo auðveldlega.

Mark Guðmundar Benediktssonar kom á móti Skagamönnum í 3. umferð Landssímadeild karla sumarið 2000 en leikurinn var spilaður upp á Akranesi.

Í hlutverkum Brasilíumannanna Roberto Firmino og Philippe Coutinho voru þeir Einar Þór Daníelsson og Andri Sigþórsson.

Daniel Sturridge fékk boltann frá Philippe Coutinho sem hafði áður fengið hann frá Roberto Firmino. Gummi Ben fékk boltann frá Andra Sigþórssyni sem hafði áður fengið hann frá Einari Þór Daníelssyni.

Bæði Daniel Sturridge og Gummi Ben skoruðu mörkin sín með frábæru utanfótarskoti í fjærhornið.

KR vann leikinn 2-0 en Andri Sigþórsson hafði komið KR í 1-0 átján mínútum fyrr. KR varð Íslandsmeistari annað árið í röð þetta sumar og Guðmundur var með 4 mörk og 5 stoðsendingar þetta sumar.  

Það er hægt að sjá skemmtilegan samanburð á þessum tveimur glæsilegu mörkum í spilaranum hér fyrir ofan. Það var Garðar Örn Arnarson sem setti þetta saman fyrir Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×