Íslenski boltinn

Hermann: Nokkrir menn í mínu liði sem líta út eins og frændur sínir

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hermann var svekktur í leikslok. Fylkir er án stiga eftir fjóra leiki.
Hermann var svekktur í leikslok. Fylkir er án stiga eftir fjóra leiki. vísir/valli
„Þetta var auðvitað frábær byrjun hjá okkur eða kannski ekki,“ segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, eftir tapið í kvöld.

Fylkir tapaði fjórða leiknum í röð í Pepsi-deild karla í kvöld þegar liðið tók á móti ÍBV. Leikurinn fór 3-0 og hefur Fylkir ekki enn fengið stig í deildinni.

„Leikurinn er varla byrjaður og við lentir undir. Það setti okkur aðeins á rassgatið. Síðan fáum við mjög klaufalegt mark á okkur stuttu síðar þar sem maðurinn fær bara að koma skokkandi í frákastið og setja boltann í netið, alveg fáránlegt. Það virðist vanta alla einbeitingu í okkar lið.“

Hermann segir að ákveðin atriði í varnarleik liðsins hafi verið barnalegt og menn náðu ekki að framkvæma hluti sem þeir eiga að hafa lært í sjötta flokki.

„Stundum er liðið að koma sér í ágætis stöðu en þá tekur alltaf bara einhver klaufaskapur við og boltinn skoppar bara í legginn á mönnum og slíkt. Við erum með ákveðin gæði í okkar leik og það sást vel í vetur. Svo allt í einu þegar mótið byrjar, þá bara hverfur þetta úr okkar liði. Þetta er alveg hreint gríðarlega svekkjandi, það eru bara einföldu hlutirnir sem eru að klikka hjá okkur og þá er erfitt að vinna fótboltaleik.“

Fylkir hefur aðeins skorað eitt mark á tímabilinu. „Sóknarleikurinn hefur verið okkar sterkasta hlið í vetur en það skiptir engu máli. Það er eitt að spila vel í einhverju vetrarmóti, en núna erum við komnir í alvörumótið. Menn þurfa halda áfram að gera hlutina eins og við gerðum í vetur, en það gerist ekkert að sjálfu sér. Ég veit ekki hvort menn séu farnir inn í einhverja skel en það er nokkur andlit í mínu liði sem líta bara út eins og frændur sínir,“ segir Hermann sem vildi ekki fara nánar út í það hvaða leikmenn það væru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×