Íslenski boltinn

Ágúst: Við áttum glimrandi leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ágúst Gylfason þjálfari Fjölnis
Ágúst Gylfason þjálfari Fjölnis Vísir / Ernir
Ágúst Gylfason var verulega sáttur eftir sigurinn gegn Víkingi Ólafsvík í kvöld og framfarirnar frá því í leiknum gegn FH í síðustu umferð.

„Ég var mjög ánægður með strákana í dag, frábær leikur hjá okkur. Við gerðum það sem við lögðum upp með og skoruðum frábær fimm mörk. Það var frábært að fá sigur í dag. Ég var ánægður með áhorfendur og alla umgjörðina. Þetta var okkar dagur í dag,“ sagði Ágúst í samtali við Vísi að leik loknum.

„Við komum okkur inn í teiginn og skoruðum mörk. Við höfum náð að koma okkur inn í teig andstæðinganna en ekki náð að reka endahnútinn á það. En það virkaði í dag og það komu fimm sæt mörk. Hansi (Hans Viktor) og Viddi (Viðar Ari) skoruðu frábær mörk og hin þrjú voru flott líka. Það skilaði sér í leikinn sem við höfum verið að gera á æfingum,“ bætti Ágúst við.

Víkingar komu taplausir í leikinn í dag en áttu fá svör við góðum leik heimamanna.

„Við vorum búnir að finna einhverja veikleika. En við spiluðum bara okkar leik og spáðum ekki mikið í mótherjana. Við áttum glimrandi leik og það var flottur karakter í liðinu. Það skilaði okkur þremur stigum.

Fjölnismenn kynntu nýtt nafn á heimavelli sínum sem hér eftir mun heita Extra-völlurinn. Ágúst talaði sérstaklega um það í viðtalinu eftir leik.

„Það eru þessir litlu hlutir sem eru að virka fyrir okkur. Þetta er einn hluti af þessu, flott nafn á vellinum. Við gerðum extra í dag,“ sagði Ágúst brosandi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×