Körfubolti

Jón Arnór stal boltanum í lokasókninni og Valencia er á lífi gegn Real

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór stal boltanum á ögurstundu.
Jón Arnór stal boltanum á ögurstundu. vísir/valli
Jón Arnór Stefánsson og félagar í Valencia héldu sér á lífi í einvíginu gegn Real Madrid í undanúrslitum spænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld.

Valencia vann dramatískan sigur í þriðja leiknum og þeim fyrsta á sínum heimavelli í einvíginu. Lokatölur eftir framlengingu, 87-86, og staðan í rimmunni er 2-1 fyrir Real Madrid.

Dramatíkin var mikil undir lokin en Guillem Vives skoraði sigurkörfu Valencia þegar örfáar sekúndur voru eftir. Real reyndi að fara í hraða sókn og skora flautukörfu fyrir sigrinum en þá stal Jón Arnór boltanum af gestunum og innsiglaði sigur sinna manna.

Jón Arnór spilaði ríflega 20 mínútur í leiknum í kvöld og skoraði þrjú stig. Hann setti niður eina þriggja stiga körfu af skotunum fjórum sem hann tók.

Næsti leikur fer einnig fram á heimavelli Valencia en vinni Jón Arnór og félagar öðru sinni verður oddaleikurinn á heimavelli Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×