Íslenski boltinn

Arnar Darri: Ég er best geymda leyndarmálið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Arnar Darri
Arnar Darri
Arnar Darri Pétursson kom inn í byrjunarlið Þróttar og greip tækifærið með báðum höndum en hann hélt hreinu í sigri Þróttar á ÍA í kvöld og var mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum.

„Ég kom til Þróttar til að fá tækifæri. Ég er mjög ánægður með innkomuna,“ sagði ánægður Arnar Darri.

„Ég hef ekki mikið fengið að spila síðan ég kom heim til Íslands. Ég fékk þessa sénsa hjá Stjörnunni og fannst ég hafa tekið þá.

„Ég hef sýnt þetta áður. Ég gerði það oft með Stjörnunni en svo var maður settur aftur á tréverkið. Atli Sigurjónsson sagði að vinstri fóturinn á sér væri best geymda leyndarmálið í íslenskum fótbolta. Ég er ósammála. Hérna er það,“ sagði Arnar Darri og benti glettinn á sjálfan sig.

„Að sjálfsögðu er það þjálfarinn sem velur liðið. Hjá Stjörnunni var það ekki mitt. Ég átti aldrei að fá að spila. Hérna eru tækifærin sem ég vil fá. Ég geri atlögu að því á æfingum og ég ætla að halda stöðunni en að sjálfsögðu er það Gregg (Ryder) sem á endanum ákveður það.“

Þróttur var meira með boltann í leiknum og sótti mikið en engu að síður hafði Arnar Darri nóg að gera í leiknum.

„Alveg klárlega. Við vissum hvað ÍA myndi reyna og það er ein ástæðan fyrir því að þjálfarinn setti mig inn. Það eru fyrirgjafir. Þeir dæla boltanum inn í öllum leikjum og eru með þessa lurka frammi í hornum.

„Mér fannst ég eiga mjög vel við þetta. Ég er bestur í fyrirgjöfum. Er sterkur í loftinu,“ sagði Arnar Darri réttilega en hann greip oft vel inn í leiknum og stjórnaði teignum vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×