Íslenski boltinn

Bjarni um Arnar Gunnlaugs: Þurftum fleiri augu og hendur á æfingasvæðinu

Ingvi Þór Sæmundsson á Extra-vellinum skrifar
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, bar sig vel þrátt fyrir 3-1 tap fyrir Fjölni í Grafarvoginum í kvöld.

„Við gerðum of mikið af mistökum, nýtum ekki færin okkar og fengum á okkur klaufaleg mörk. Þá eigum við lítið skilið út úr leikjunum,“ sagði Bjarni eftir leik.

Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR, fór meiddur af velli skömmu eftir að KR-ingar komust yfir og það riðlaði leik Vesturbæinga.

„Það var auðvitað ekki gott að missa Indriða út af. En Aron [Bjarki Jósepsson] kom inn á og leysti stöðuna alveg ágætlega. Þetta á ekki að vera nein einasta afsökun fyrir okkur,“ sagði Bjarni sem var sérstaklega ósáttur við þriðja mark Fjölnis.

„Í þriðja markinu reynum við að troða boltanum í gegnum ómögulega stöðu í staðinn fyrir að fara aftur fyrir þá eða breitt þar sem þeir voru hátt uppi á vellinum. Þeir vinna boltann og hlaupa upp þegar við erum með bakvörðinn út úr stöðu. Annars fannst mér við ráða ágætlega við þá og þeir áttu ekkert margar sóknir en nýttu sín færi.“

Arnar Gunnlaugsson er nýr meðlimur í þjálfarateymi KR-inga og verður með þeim út tímabilið. En hver er hugsunin á bak við þá ráðningu?

„Guðmundur [Benediktsson] er að vinna mikið fyrir Símann akkúrat núna og er mikið úti í Frakklandi þannig að við þurftum bara fleiri augu og hendur á æfingasvæðinu,“ sagði Bjarni sem hefur þrátt fyrir allt trú á því sem KR er að gera en liðið situr í 8. sæti Pepsi-deildarinnar með aðeins níu stig eftir átta leiki.

„Við þurfum fyrst og fremst að standa saman og halda áfram að vinna okkur í gegnum erfiðleikana. Það þýðir lítið að vorkenna sér og benda á einhvern annan. Nú þarf hver að líta í eigin barm og við byrjum strax í fyrramálið að reyna að leysa úr þessari flækju,“ sagði þjálfarinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×