Íslenski boltinn

Willum Þór: „Ég er alltaf til í að ræða við vini mína í Vesturbænum“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Willum hefur þjálfað KR, Hauka, Þrótt, Leikni, Val auk landsliðsins í Futsal.
Willum hefur þjálfað KR, Hauka, Þrótt, Leikni, Val auk landsliðsins í Futsal. Vísir/Vilhelm
Willum Þór Þórsson er einn þeirra sem gárungarnir telja líklegan eftirmann Bjarna Guðjónssonar sem þjálfara karlaliðs KR í knattspyrnu. Hann hefur þó ekki enn fengið símtal frá formanninum, Kristni Kjærnested.

„Þetta var bara að gerast í morgun. Menn eru væntanlega bara að fara yfir málin í Vesturbænum,“ sagði Willum aðspurður um þjálfarastarfið hjá þeim svörtu og hvítu. 

„Þetta er náttúrulega flottasti klúbburinn. Ég er uppalinn þarna þannig að þú færð mig ekki til að segja nokkuð annað,“ bætti Willum við hinn hressasti. Hann var búinn að fara með fjölskyldunni á kjörstað og kjósa forseta en vildi halda fyrir sig hvern hann kaus. 

Aðspurður hvort hann væri tilbúinn að taka við starfi þjálfara KR segir Willum:

„Ég er alltaf til í að ræða við vini mína í Vesturbænum.“

Willum spilaði með KR á sínum tíma og þjálfaði liðið frá 2002 til 2004 þegar liðið varð Íslandsmeistari í tvígang. Hann hafði orð á því hve mikið væri í gangi þessa stundina; forsetakosningar og Evrópumótið. Nóg væri að gera í þingfríinu en Willum er þingmaður Framsóknarflokksins. Hann hefur mikla trú á strákunum okkar gegn Englandi á mánudag.

„Þetta er orðið svo furðulegt,“ segir Willum sem dáist að íslenska landsliðinu. „Þeir hafa staðið sig svo vel að maður trúir að þeir geti allt.“


Tengdar fréttir

Bjarni rekinn frá KR

Bjarni Guðjónsson hefur verið rekinn úr starfi sem þjálfari meistaraflokks karla hjá KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×