Íslenski boltinn

Haukur Páll: Full stórt tap að mínu mati

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Haukur Páll í leik gegn KR.
Haukur Páll í leik gegn KR. Mynd/Vísir
„Þetta er kannski full stórt tap að mínu mati. Við fáum færi í þessum leik og áttum að skora fleiri mörk en við vorum að mæta atvinnumannaliði sem refsar fyrir öll mistök,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, svekktur að leikslokum eftir 1-4 tap gegn Bröndby í kvöld.

Sjá einnig:Umfjöllun og viðtöl: Valur - Bröndby 1-4 | Sjáðu mörkin

Valsmenn fengu besta færi fyrri hálfleiks og fengu annað sannkallað dauðafæri til að jafna í stöðunni 0-1 en náðu ekki að nýta sér það.

„Við fáum fínt færi í fyrri hálfleik en þetta er kannski munurinn á okkur og stóru klúbbunum í Skandinavíu. Þeir nýta sér öll þau færi sem þú gefur þeim í leikjum.“

Valsmönnum tókst vel að loka á sóknarlotur danska liðsins í fyrri hálfleik en fengu tvö mörk á sig í upphafi seinni hálfleiks sem gerðu út um leikinn.

„Þetta hefði verið allt annar leikur ef við hefðum náð að jafna leikinn en í staðin fáum við mark í andlitið og þeir ganga á lagið.“

„Þeir eru með frábært lið, við vissum það alveg en þetta var full auðvelt fyrir þá eftir annað markið,“ sagði Haukur Páll sem var þó ekki búinn að gefa upp alla von.

„Það er ennþá möguleiki, það er allt hægt í fótbolta og ef við náum að krækja í víti og rautt á annarri mínútu úti er aldrei að vita. Við þurfum bara að skora úr vítinu og þá er aldrei að vita, þá eru þetta bara tvö mörk,“ sagði Haukur léttur.


Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Valur - Brøndby 1-4 | Sjáðu mörkin

Danska stórveldið Bröndby var einfaldlega númeri of stórt fyrir Valsmenn í fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld en eftir að danska félagið komst yfir á upphafsmínútum seinni hálfleiks voru úrslitin aldrei í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×