Fótbolti

Fjarðabyggð vann sinn fyrsta leik síðan í annarri umferð er liðið skellti Fram

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ásmundur Arnarsson og lærisveinar hans eru án sigurs í síðustu þremur leikjum.
Ásmundur Arnarsson og lærisveinar hans eru án sigurs í síðustu þremur leikjum. vísir/hanna
Fjarðabyggð vann sterkan sigur á Fram í Inkasso-deildinni í fótbolta í kvöld, 2-1, en þetta er fyrsti sigurleikur liðsins síðan það lagði Leikni Fáskrúðsfirði í annarri umferð Íslandsmótsins.

Sveinn Fannar Sæmundsson kom Fjarðabyggð yfir á Eskjuvelli á 59. mínútu og Jón Arnar Barðdal, lánsmaður frá Stjörnunni, tvöfaldaði forskot heimamanna tíu mínútum síðar, 2-0.

Hinn bráðefnilegi Borgfirðingur Helgi Guðjónsson minnkaði muninn fyrir Fram á 86. mínútu, 2-1, en nær komust Safamýrarpiltar ekki. Þetta var fyrsta mark þessa unga og efnilega stráks á Íslandsmótinu en hann er fæddur árið 1999.

Sigurinn er heldur betur kærkominn fyrir Fjarðabyggð sem er í fallbaráttunni en liðið er nú með tíu stig eftir tíu umferðir. Liðið var búið að spila sjö leiki í röð án þess að vinna; gera fjögur jafntefli og tapa þremur leikjum.

Eftir að vera á góðum skriði seinni hluta maí og fram í júní eru Framarar nú í erfiðum málum. Liðið er búið að tapa tveimur og gera eitt jafntefli í síðustu þremur leikjum, allt gegn liðum í neðri hlutanum; Selfossi, HK og Fjarðabyggð. Fram er með þrettán stig eftir tíu umferðir.

Upplýsingar um markaskorara fengnar frá Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×