Íslenski boltinn

Ágúst: Fúlt að fá ekki neitt út úr leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum í Garðabæ skrifar
Ágúst var svekktur að fá ekki stig úr leiknum í Garðabænum í kvöld.
Ágúst var svekktur að fá ekki stig úr leiknum í Garðabænum í kvöld. vísir/daníel
Ágústi Gylfasyni, þjálfara Fjölnis, fannst sínir menn sterkari aðilinn í leiknum gegn Stjörnunni í kvöld.

„Mér fannst við vera betri. Við lögðum okkur 100% fram í leiknum. Þetta var baráttuleikur, sérstaklega í fyrri hálfleik en þetta datt með þeim. Það var mikið af vafaatriðum í þessum leik sem ég þarf að skoða betur,“ sagði Ágúst. Hann segist ekki hafa séð atvikið þegar Ægir Jarl Jónasson skoraði í uppbótartíma en var dæmdur rangstæður vel.

„Ef hann dæmir rangstöðu hlýtur það að vera rangstaða. En við breytum ekkert úrslitum leiksins með því að væla yfir því.

„Ég var ánægður með strákana, þeir stóðu sig vel og við vorum nokkuð flottir í þessum leik. Stjörnumenn áttu í basli með okkur og það er fúlt að fá ekki neitt út úr leiknum.“

Fyrri hálfleikurinn var mjög opinn og bæði lið voru veik fyrir boltum inn fyrir. Ágúst viðurkennir að það sé meðvituð áhætta sem Fjölnismenn taki.

„Við erum með þannig lið að við viljum liggja ofarlega og það er hugsanlega pláss fyrir aftan okkur. Það er okkar leikstíll. Við erum ákveðnir fram á við og sköpuðum okkur fullt af færum í dag,“ sagði Ágúst.

Fjölnismenn spiluðu síðast leik 24. júní og Ágúst segir að þetta langa hlé hafi sett strik í reikning þeirra.

„Það hafði mikil áhrif í undirbúningum. Við erum búnir að hafa 17 daga á milli leikja og það er erfitt að mótivera menn en við náðum því. Við vorum flottir í dag en úrslitin féllu ekki með okkur,“ sagði Ágúst að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×