Íslenski boltinn

Staðan hefur mikið breyst hjá liðum Leiknis R. og Þórs á síðustu vikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Kárason fagnar marki.
Kolbeinn Kárason fagnar marki. Vísir/Valli
Kolbeinn Kárason tryggði Leikni Reykjavík 2-1 útisigur á Þór á Akureyri í kvöld þegar liðin mættust í tólftu umferð Inkasso deildar karla á Þórsvellinum.

Kolbeinn Kárason skoraði sigurmarkið á 74. mínútu leiksins eða aðeins þremur mínútum eftir að Gunnar Örvar Stefánsson hafði jafnað fyrir Þór.  

Fannar Þór Arnarsson kom Leikni í 1-0 á 38. mínútu og þannig var staðan í 36 mínútur.

Kolbeinn Kárason tryggði Leiknisliðinu einnig sigur á Leikni F. fyrir tíu dögum síðan og er því að skora mikilvæg mörk fyrir liðið í sumar.

Gengi Leiknisliðsins hefur annaðhvort verið í ökkla eða eyra í sumar enda hefur liðið skipts á að eiga mjög góðar vikur og mjög slæmar vikur.

Eftir góða byrjun á mótinu lenti Leiknisliðið þannig í basli í júnímánuði þegar liðið tapaði fjórum leikjum í röð en Kristján Guðmundsson, þjálfari Leiknisliðsins, er heldur betur búinn að koma sínum mönnum aftur í gang.

Leiknismenn hafa nú náð í 13 stig af 15 mögulegum út úr síðustu fimm leikjum og Breiðhyltingar eru núna aðeins einu stigi á eftir Grindavík sem situr í öðru sætinu.

Þórsarar voru í fínum málum við toppinn fyrir fjórum leikjum. Fjögur töp í röð þýða það hinsvegar að liðið er dottið niður í fimmta sætið og er nú fimm stigum frá sæti sem gefur farseðil upp í Pepsi-deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×