Skoðun

Framhjáhöld

Bjarni Karlsson skrifar
Enn minnast Þingeyingar gamla bóndans sem lá fyrir dauðanum. Fólk var að koma að vitja hans og í miðjum klíðum lítur hann upp af kodda sínum, horfir brosleitur á ástvini og samferðamenn og mælir: Ég hefði ekki viljað missa af banalegunni!

Það er margt misjafnt sem gerist í lífi okkar og eftir á hefðum við viljað missa af því fæstu. Þó er sumt undanskilið. Til dæmis hef ég í mínu starfi kynnst mörgu góðu og skynsömu fólki sem hefur haldið framhjá maka sínum og er orðið ljóst að framhjáhöld eru ekki í þeim flokki aðstæðna sem fólk hefði nú þrátt fyrir allt ekki viljað fara á mis við: Ekki hefði ég viljað missa af framhjáhaldinu, er setning sem ég hef enn ekki heyrt af vörum nokkurrar persónu. Hvers vegna?

Líklega vegna þess að eftir á uppgötvum við, ef við höldum framhjá, að við höfum ýtt af stað atburðarás sem við getum ekki stjórnað og varðar m.a. heilsu maka okkar. Fólk heldur framhjá af ýmsum ástæðum en það gerir það ekki vegna þess að þau eru vondar manneskjur og vilji valda skaða.

Framhjáhöld gerast til dæmis vegna hégóma, forvitni, ástarkenndar, greddu, sjálflægni, ævintýra- eða hefndarþrár og stundum bara af ósvífni í bland við ölvímu. En enginn sem heldur framhjá ætlar sér að ögra heilsu maka síns og setja hana í áhættuflokk. Þó er það einmitt það sem gerist í flestum tilvikum og er kannski það erfiða í þessu öllu.

Við erum spendýr. Spendýr pissa í hornin og marka sér svæði og í eðli þeirra er ekkert rými fyrir tryggðarof. Spendýrið í okkur fyrirgefur ekki framhjáhald. Þess vegna er þetta svo flókið, tekur mikið á og kostar tíma sem allir aðilar máls hefðu viljað verja betur.




Skoðun

Sjá meira


×