Íslenski boltinn

Heimir: Titillinn mun ekki falla í kjöltuna okkar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Vísir
FH varð af tækifæri til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í dag er liðið gerði 1-1 jafntefli við Val á heimavelli sínum.

Sigur hefði fært FH titilinn en liðið verðu nú að bíða annað hvort eftir hagstæðum úrslitum í þessari umferð eða til næsta sunnudags er FH mætir Víkingi Reykjavík á útivelli.

Valsmenn komust yfir í leiknum en Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin í síðari hálfleik. Hann átti svo skot í slá í blálok leiksins.

„Við fengum þrjá góða möguleika til að tryggja okkur sigur hér í restina. En ég held að við getum verið sáttir við niðurstöðuna. Valsararnir voru góðir í þessum leik og Gunnar Nielsen varði nokkrum sinnum vel,“ sagði Heimir.

Hann segir að það hafi verið sama saga í dag og í síðustu leikjum. FH-ingar hafi ekki verið að byrja leikina nægilega vel.

„Mér fannst við reyndar ágætir fyrstu tíu mínúturnar en þegar Valsmenn komu á okkur þá datt botninn úr okkur. Skiptingarnar okkar lífguðu upp á leikinn og það hefði verið gaman að klára þetta. En það er ljóst að við þurfum að spila betur í næsta leik en við gerðum í dag.“

Hann játar að hann hefði viljað sjá meiri ákefð í liði Hafnfirðinga. „Á köflum. En við verðum líka að átta okkur á því að Valsmenn eru með afar öflugt lið og hafa verið að spila mjög vel síðustu vikur. Þetta eru vonbrigði, við hefðum viljað klára þetta á heimavelli fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn.“

„Við verðum bara gjöra svo vel að halda áfram og klára þennan titil. Hann mun ekki falla í kjöltuna okkar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×