Íslenski boltinn

Enn eitt höfuðhöggið og Guðjón Árni er hættur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Árni í leik með Keflavík gegn KR.
Guðjón Árni í leik með Keflavík gegn KR. Vísir/Pjetur
Guðjón Árni Antoníusson mun ekki spila með Keflavík í Inkasso-deildinni í sumar og hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Þetta staðfestir Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Fótbolti.net. Hann segir að Guðjón Árni hafi fengið höfuðhögg í vetur og tekið þá ákvörðun að hætta.

Guðjón Árni hefur verið að glíma við eftirköst höfuðmeiðsla undanfarin ár og þau hafa lengi vel ógnað ferli hans. Hann spilaði þó sautján leiki með Keflavík í Inkasso-deildinni síðastliðið sumar.

Hann er á 34. aldursári og hefur spilað með meistaraflokki Keflavíkur undanfarin fimmtán ár, ef frá eru talin þrjú tímabil í FH frá 2012 til 2014. Hann varð Íslandsmeistari með FH-ingum á fyrsta tímabili sínu í Kaplakrika.

Hann á alls 273 leiki að baki í bæði deild og bikar, þar af 21 mark. Hann skoraði sex mörk í 22 deildarleikjum fyrir FH sumarið 2012, er Hafnfirðingar urðu Íslandsmeistarar.

Guðjón Árni hlaut fyrst höfuðmeiðsli árið 2013 en það gerðist á æfingu, nokkrum dögum fyrir fyrsta leik tímabilsins. Skömmu síðar fékk hann annan höfuðhögg en hélt áfram að spila.

Sjá einnig: Guðjón Árni: Tek ekki áhættu með höfuðið á mér

„Í fyrstu leikjunum var ég í smá vandræðum með daglegt amstur og fann að ég var ekki eins og ég átti að mér að vera. Svo í leik gegn ÍBV fæ ég fast skot í höfuðið og eftir það fannst mér ég vera frekar ringlaður inn á vellinum.“

„Daginn eftir vakna ég og líður eins og ég sé ekki í líkamanum. Ég var kolringlaður og gat varla gengið. Þá fyrst fór ég að láta athuga mig,“ sagði Guðjón Árni í viðtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í júní 2014.


Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - FH 2-2 | FH Íslandsmeistari

FH og Stjarnan skildu jöfn 2-2 á Samsung-vellinum í Garðabænum í kvöld en með úrslitunum tryggðu FH-ingar sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu árið 2012. Frábær árangur hjá Fimleikafélaginu sem tryggir sér titilinn þremur umferðum fyrir mótslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×