Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Stjarnan 2-2 | Garðbæingar jöfnuðu í lokin

Kristinn Páll Teitsson á Grindavíkurvelli skrifar
Hilmar Árni var besti leikmaður Stjörnunnar á síðasta tímabili.
Hilmar Árni var besti leikmaður Stjörnunnar á síðasta tímabili. vísir/eyþór
Nýliðar Grindavíkur tóku stig af Stjörnunni í fyrsta leik sínum í Pepsi-deildinni en voru nálægt því að fá öll stigin því jöfnunarmark Garðbæinga kom ekki fyrr en sex mínútum fyrir leikslok.

Grindavík og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli en spilað var við mjög erfiðar aðstæður í Grindavík. Þrátt fyrir rok og rigningu þá buðu leikmenn liðanna upp á skemmtilegan leik.

Daníel Laxdal skoraði jöfnunarmarkið fyrir Stjörnuna á 84. mínútu en Grindavík hafði þá verið yfir frá því í lok fyrri hálfleiks.

Alexander Þórarinsson kom Grindavík í 1-0 með marki úr víti en Baldur Sigurðsson jafnaði fyrir Stjörnunnar áður en Magnús Björgvinsson kom Grindavík aftur yfir.

Af hverju skyldu liðin jöfn

Það voru afar erfiðar aðstæður til að spila fótbolta í dag og hentaði það heimamönnum betur sem eru vanir að leika í vindasömum leik þar sem erfitt er að halda bolta.

Fengu þeir tvö mörk eftir einbeitingarleysi í vörn Stjörnunnar og gat Grindavík því leyft sér að sitja aftur og að reyna að beita skyndisóknum þegar færi gafst til.

Grindvíkingar voru nálægt því að taka sigurinn gegn einu af liðunum sem spáð er toppbaráttu í sumar strax í fyrstu umferð en umdeild dómaraákvörðun gerði það að verkum að liðin skyldu jöfn.

Þessir stóðu upp úr

Varnarlína Grindvíkinga stóð vakt sína vel en Grindvíkingar tefldu fram fimm manna varnarlínu er þeir vörðust. Hákon Ívar Ólafsson náði að loka vel á Hilmar Árna Halldórsson og Jósef Kristinn Jósefsson og voru miðverðirnir duglegir að stíga út og hjálpa.

Hjá Stjörnunni átti hinn ungi Alex Þór Hauksson flottan leik við hlið Eyjólfs Héðinssonar á miðjunni en hann gerði hlutina einfalt og skilvirkt og kom vel út úr leiknum.

Hvað gekk illa?

Veðráttan gerði liðum erfitt fyrir að spila boltanum sín á milli og var lítið um flotta kafla hjá báðum liðum. Í raun gekk Stjörnunni betur að leika gegn vindi þegar leikmennirnir voru tilbúnir að taka boltann niður og spila sín á milli.

Stjarnan getur hinsvegar gert mun betur, þar á meðal vinstra megin þar sem miklar væntingar eru gerðar til liðsins en Hilmar og Jósef náðu ekki að ógna nægilega mikið saman.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fær heimaleik gegn ÍBV sem náði markalausu jafntefli í fyrstu umferð þrátt fyrir að leika manni færri frá tíundu mínútu en Garðbæingar mega varla við því að tapa fleiri stigum þar og fara strax í eltingarleik.

Grindvíkingar aftur á móti fara í Fossvoginn og mæta Víkingum sem sóttu þrjú stigin í Frostaskjól í kvöld.

Byrjunarlið Grindavíkur 5-3-2 - Kristijan Jajalo 5 - Hákon Ívar Ólafsson 7, Brynjar Ásgeir Guðmundsson 6, Björg Berg Bryde 6, Matthías Örn Friðriksson 6, Gunnar Þorsteinsson 7 - Milos Zeravica 7, Sam Hewson 7, Alexander Veigar Þórarinsson 8 - Andri Rúnar Bjarnason 6 (35. William Daniels 4), Magnús Björgvinsson 7 (71. Aron Freyr Róbertsson).

Byrjunarlið Stjörnunnar 4-3-3 - Haraldur Björnsson - Jóhann Laxdal 6, Brynjar Gauti Guðjónsson 5, Daníel Laxdal 7, Jósef Kristinn Jósefsson 5 - Alex Þór Hauksson 7 (82.  Kristófer Konráðsson), Eyjólfur Héðinsson 6, Baldur Sigurðsson 7 - Hólmbert Aron Friðjónsson 6 (90. Arnar Már Björgvinsson), Hilmar Árni Halldórsson 4, Guðjón Baldvinsson 5.

Gunnar: Sem nýliðar er helsta áhersluatriðið að verjast vel„Þetta er mjög svekkjandi úr því sem komið var. Fyrirfram hefðum við verið tekið stigið en við vorum með þetta í okkar höndum þegar tíu mínútur eru eftir,“ sagði Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindvíkinga, svekktur að leikslokum.

„Það er gott að fá fyrstu stig sumarsins og að vera komnir á blað en það er svekkjandi að þau séu ekki þrjú.“

Grindvíkingar leyfðu Stjörnunni að vera með boltann en gáfu afar fá færi á sér.

„Við erum nýliðar í deildinni og fyrsta áhersluatriði okkar er varnarleikurinn. Við munum alltaf skora mörk eins og við sýndum í dag gegn góðu liði Stjörnunnar,“ sagði Gunnar og hélt áfram:

„Spennustigið var rosalega mikið fyrir leikinn og það kemur fyrir að við gerum mistök. Það er eðlilegt að það séu svona smá vandræði í byrjun en við náum vonandi að laga það.“

Grindvíkingar voru ósáttir með taktík Garðbæinga að fjölmenna í kringum markmanninn í öllum föstum leikatriðum en þannig kom jöfnunarmarkið.

„Þetta leit út fyrir að vera brot fyrir mér úr vítateignum, þeir nýttu sér vindinn vel og gerðu eitthvað sem við hefðum átt að gera betur og skrúfuðu boltann inn að markinu.“

Baldur: Fer héðan hundsvekktur með aðeins eitt stig„Maður er ekki sáttur, við fáum færi til að taka þetta hérna í lokin og þar verðum við, þar á meðal ég, að gera betur,“ sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, aðspurður hvort Garðbæingar tæku stiginu fagnandi úr því sem komið var eftir að hafa verið undir lengst af.

„Hérna undir lokin erum við í álitlegri stöðu og ég get komið boltanum á Jósef í hlaupinu og ég er svekktur út í sjálfan mig.“

Stjarnan var lengst af með boltann í seinni hálfleik þegar liðið lék undan vindi en spilamennskan var betri í fyrri hálfleik.

„Það hentaði okkur betur að leika gegn vindi í dag en það þurftu bæði liðin að leika við þessar aðstæður í dag og þeim tókst að nýta sér það vel með góðu marki undir lok fyrri hálfleiks,“ sagði Baldur og hélt áfram:

„Við áttum von á því að þeir myndu falla aðeins til baka gegn vindinum. Við hefðum átt að klára þetta hérna undir lokin og ég fer héðan hundsvekktur með aðeins eitt stig.“

Óli Stefán: Fannst þetta vera brot„Við vorum komnir með þetta langt inn í leikinn en þeir lágu vissulega svolítið þungt á okkur hérna í seinni hálfleik,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga, að leikslokum.

„Maður var svolítið stressaður þegar boltinn kom inn í en það var helst í föstum leikatriðum sem þeir voru að ógna. Þeir náðu varla að ógna úr opnum leik og strákarnir héldu skipulagi vel.“

Grindvíkingar komust í tvígang yfir en Stjarnan náði að svara í bæði skiptin.

„Við komumst tvisvar yfir eftir tvær góðar sóknir, seinna markið kemur á frábærum tíma og við förum langt inn í leikinn á því marki en ég virði stigið að leik loknum.“

Hann vildi lítið tjá sig um jöfnunarmark Stjörnunnar en Grindvíkingar voru ósáttir að fá ekki brot dæmt á Stjörnuna í markinu.

„Ég er náttúrulega litaður en mér fannst þetta vera brot og markmaðurinn okkar var virkilega ósáttur. Ég þarf að sjá þetta betur í sjónvarpinu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira