Íslenski boltinn

Formaður knd. Breiðabliks: Kannski mistök að vera ekki tilbúin með nýjan þjálfara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Blikar eru ekki búnir að vinna leik í sumar.
Blikar eru ekki búnir að vinna leik í sumar. vísir/anton brink
„Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera Bliki síðustu vikur, ljósið í myrkrinu hefur verið gengi stelpnanna okkar og Steina í meistaraflokki kvenna. Gengi karlaliðsins hefur verið undir væntingum og í síðustu viku ákvað stjórnin að skipta um manninn í brúnni.“

Svona hefst pistill Ólafs Hrafns Ólafssonar, formanns knattspyrnudeildar Breiðabliks, á stuðningsmannasíðu félagsins á Facebook þar sem hann fer yfir atburði síðustu daga.

Ólafur og félagar hans í stjórninni tóku þá ákvörðun að reka Arnar Grétarsson í síðustu viku eftir að liðið var búið að tapa fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Úrslitin „undanfarin misseri“ voru sögð ástæða þess að Arnar var látinn taka pokann sinn.

Sigurður Víðison, aðstoðarmaður Arnars, hefur stýrt Blikaliðinu í síðustu tveimur leikjum og töpuðust þeir báðir. Fyrst tapaði Breiðablik nágrannaslagnum á móti Stjörnunni í Pepsi-deildinni og svo var því skellt í bikarnum af Fylki sem leikur í Inkasso-deildinni í gær.

Óhjákvæmilegt að láta Arnar fara

Ólafur ítrekar í pistli sínum að óhjákvæmilegt var að láta Arnar fara en viðurkennir mistök stjórnar að vera ekki klár með mann í hans stað. Blikar reyndu að fá danska þjálfarann Allan Kuhn en hann hafnaði tilboði Kópavogsliðsins eins og Vísir greindi frá.

„Sú ákvörðun var gríðarlega erfið og tók á alla sem komu að henni. En í ljósi aðstæðna var það mat stjórnarinnar að því miður hafi það verið óhjákvæmilegt og ekkert annað í stöðunni,“ segir Ólafur og heldur áfram:

„Kannski voru það mistök hjá okkur að vera ekki tilbúin með eftirmann en af virðingu við Adda og félagið fannst okkur ekki koma til greina að fara á bak við hann og byrja einhverja leit meðan hann var enn í starfi hjá félaginu.“

„Leit að nýjum þjálfara stendur yfir og leggjum við okkur fram um að gera það eins faglega og vel eins og kostur er og munum því taka okkur þann tíma sem þarf til að klára það mál. Ég á samt von á því að fljótlega verði hægt að tilkynna hver eða hverjir stýri liðinu næstu misseri,“ segir Ólafur Hrafn Ólafsson.

Formaðurinn biðlar til stuðningsmanna að fjölmenna í Víkina þar sem liðið mætir Víkingi Reykjavík í Pepsi-deildinni á sunnudaginn og styðja við sína menn.

Pistill Ólafs Hrafns.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×