Dallas Cowboys, New York Yankees og Manchester United eru verðmætustu íþróttafélög heims í dag samkvæmt samantekt bandaríska viðskiptablaðsins Forbes.
Manchester United var á toppi listans 2011 og 2012 en hafði hrapað niður listann á síðustu árum. United komst hinsvegar núna upp fyrir bæði spænsku félögin Barcelona og Real Madrid og getur því aftur kallað sig verðmætasta fótboltafélag heims. BBC segir frá.
NFL-liðið Dallas Cowboys frá Bandaríkjunum er hinsvegar verðmætast íþróttafélag heimsins en Forbes metur að það sé 4,3 milljarða dollara virði í dag. 4,3 milljarðar dollara eru 456 milljarðar íslenskra króna.
Í öðru sæti er bandaríska hafnarboltaliðið New York Yankees sem er metið á 3,7 milljarða dollara eða 392 milljarða íslenskra króna.
Manchester United er rétt á eftir Yankees en virði United er 3,39 milljarðar dollara samkvæmt samantekt Forbes.
Hér má sjá topp tíu listann:
1. Dallas Cowboys 4,2 milljarðar dollara - amerískur fótbolti
2. New York Yankees 3,7 milljarðar dollara - hafnarbolti
3. Manchester United 3,69 milljarðar dollara - knattspyrna
4. Barcelona 3,64 milljarðar dollara - knattspyrna
5. Real Madrid 3,58 milljarðar dollara - knattspyrna
6. New England Patriots 3,4 milljarðar dollara - amerískur fótbolti
7. New York Knicks 3.3 milljarðar dollara - körfubolti
8. New York Giants 3,1 milljarður dollara - amerískur fótbolti
9. San Francisco 49ers 3 milljarðar dollara - amerískur fótbolti
10. Los Angeles Lakers 3 milljarðar dollara - körfubolti

