Erlent

Stefnuræða Juncker: Nú er gluggi til að ráðast í umbætur

Atli Ísleifsson skrifar
Jean Claude Juncker lagði til að skapað yrði embætti "fjármálaráðherra“ sambandsins.
Jean Claude Juncker lagði til að skapað yrði embætti "fjármálaráðherra“ sambandsins. Vísir/AFP
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir að Evrópa sé aftur komin „með byr í seglin“ og að nú hafi opnast gluggi til að ráðast í umbætur til að gera sambandið sterkara og meira samstíga. Sá gluggi verði hins vegar ekki opinn að eilífu.

Þetta kom fram í árlegri stefnuræðu forsetans sem hann flutti í sal Evrópuþingsins í morgun. Sagði hann að efnahagur Evrópu væri aftur á uppleið og að sambandið þyrfti nú að líta til framtíðar, án aðildar Bretlands.

Juncker sagði að sambandið ætti að fagna umbótum á sambandinu og vinna að smíði nýrra viðskiptasamninga við Ástralíu og Nýja-Sjáland. Þá sagði hann að dregið hafi úr þeim ógnum sem sambandið hafi staðið frammi fyrir að undanförnu svo sem yfirvofandi útganga Bretlands, flóttamannavandinn og þjóðernispopúlismi. Sagði hann að á síðasta ári hafi ESB verið í slæmu ásigkomulagi en að nú hafi aftur birt til.

Embætti fjármálaráðherra sambandsins

Forsetinn sagði nú tíma til kominn að Rúmenía og Búlgaría myndu loks gerast aðilar að Schengen-samstarfinu og að Króatía ætti einnig að bætast í hópinn um leið og landið væri reiðubúið til þess.

Juncker lagði til að embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar og forseta leiðtogaráðsins yrði sameinað í eitt. Sá eða sú sem myndi gegna embættinu yrði þannig andlit ESB út á við. Þá lagði hann einnig til að skapað yrði embætti „fjármálaráðherra“ sambandsins, þannig að hægt yrði að auka samvinnuna á evrusvæðinu.

Í ræðu sinni beindi hann spjótum sínum sérstaklega að Tyrklandi og sagði stjórnvöld þar í landi vera að fjarlægjast ESB. Hvatti hann Tyrklandsstjórn til að sleppa blaðamönnum úr haldi og hætta árásum sínum á leiðtoga Evrópu. „Hættið að kalla leiðtoga okkar fasista og nasista!“ sagði Juncker við mikinn fögnuð viðstaddra.

Þá sagði hann einnig að Tyrkland ætti ekki að gera sér vonir um að gerast aðili að ESB í fyrirsjáanlegri framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×