Körfubolti

Fyrsti NBA-þjálfarinn búinn að fá sparkið og tímabilið er ekki viku gamalt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Earl Watson.
Earl Watson. Vísir/Getty
Einn þjálfaranna í NBA-deildinni í körfubolta náði ekki að klára fyrstu vikuna á tímabilinu. Phoenix Suns rak í gær þjálfara sinn Earl Watson. ESPN segir frá.

Earl Watson var að byrja sitt þriðja tímabil með Phoenix Suns liðið en náði aðeins að stjórna liðinu í þremur leikjum á núverandi tímabili sem hófst í síðustu viku. Watson tók við af Jeff Hornacek 50 leiki inn í 2015-16 tímabilið.  

Undir stjórn Earl Watson vann Suns-liði aðeins 33 af 118 leikjum sínum þar af bara 24 sigra á síðasta tímabili. Watson er 38 ára gamall og þetta var hans fyrsta aðalþjálfarastarf.

Það er óhætt að segja að þetta hafi verið erfið byrjun hjá Phoenix Suns liðinu. Liðið hefur tapað fyrstu þremur leikjum sínum þar af illa á móti bæði Portland Trail Blazers (124-76) og Los Angeles Clippers (130-88).

Tölfræði talar sínu máli en samkvæmt henni er Phoenix Suns með verstu vörnina í deildinni og næstslökustu sóknina.





Jay Triano fær stöðuhækkun og tekur við þjálfun liðsins en hann hefur verið aðstoðarmaður Earl Watson í tvö tímabil auk þess að þjálfa kanadíska landsliðið.

Þrír aðstoðarþjálfarar Earl Watson þurftu aftur á móti að taka pokann sinn en það voru þeir Nate Bjorkgren, Mehmet Okur og Jason Fraser.

Tyrone Corbin, fyrrum þjálfari Utah Jazx og Sacramento Kings, verður aðal aðstoðarmaður Jay Triano.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×