Körfubolti

Curry vikið af velli í öðru tapi meistaranna | Myndbönd

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Stephen Curry brosti lítið í nótt.
Stephen Curry brosti lítið í nótt. Vísir/AP
Ríkjandi NBA meistarar Golden State Warriors fara illa af stað en liðið beið lægri hlut fyrir Memphis Grizzlies í nótt og hafa nú tapað tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum.

 

Meistararnir réðu ekkert við Marc Gasol undir körfunni en Spánverjinn stóri og stæðilegi skoraði 34 stig ásamt því að taka 14 fráköst. Stephen Curry var atkvæðamestur í liði Golden State Warriors með 37 stig en hann var rekinn úr húsi á lokamínútu leiksins fyrir að missa stjórn á skapi sínu þegar hann fleygði sínu fræga munnstykki í átt að dómurum leiksins.





Cleveland Cavaliers tapaði sömuleiðis sínum öðrum leik þegar Lebron James og félagar lutu í lægra haldi fyrir Orlando Magic, 114-93, þrátt fyrir að Orlando léki án lykilmanna sinna, Elfrid Payton og Aaron Gordon. James var stigahæstur hjá Cleveland með 22 stig en Nikola Vucevic gerði 23 stig fyrir Magic.

 

Þriðja ofurliðið, Oklahoma City Thunder, tapaði sömuleiðis en Carmelo Anthony var stigahæstur í liði Thunder sem tapaði með níu stiga mun fyrir Utah Jazz, 87-96. Carmelo gerði 26 stig en stigahæstur hjá Jazz var enginn annar en Joe Ingles með 19 stig.

 

Gríska undrið Giannis Antetokounmpo byrjar tímabilið af krafti en hann gerði 44 stig í naumum sigri Milwaukee Bucks á Portland Trailblazers.



 

Úrslitin í nótt

Toronto Raptors 128-94 Philadelphia 76ers

Cleveland Cavaliers 93-114 Orlando Magic

Miami Heat 112-108 Indiana Pacers

New York Knicks 107-111 Detroit Pistons

Chicago Bulls 77-87 San Antonio Spurs

Houston Rockets 107-91 Dallas Mavericks

Memphis Grizzlies 111-101 Golden State Warriors

Milwaukee Bucks 113-110 Portland Trailblazers

Utah Jazz 96-87 Oklahoma City Thunder

Los Angeles Clippers 130-88 Phoenix Suns

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×