Samkvæmt kynningarefni sem fylgir erindinu og unnið er af margmiðlunarfyrirtækinu Gagarín og Tvíhorfi arkitektum á útsýnisturninn að ná 110 metra yfir sjávarmál. Þar með myndi hann ná jafn hátt og hin 75 metra háa Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti.
Turn Hallgrímskirkju hefur á undanförnum árum skapað sókninni hundraða milljóna króna tekjur í aðgangseyri, þær námu 238 milljónum á árinu 2016. Það virðist þannig vera eftir talsverðu að slægjast fjárhagslega.

„Að því tímabili loknu gera Reitir ráð fyrir að vitinn gæti orðið góð tekjulind fyrir borgina. Sú hugmynd hefur jafnframt komið upp að hluti af aðgangseyri í vitann myndi renna í sjóð sem ætlað væri að mæta kostnaði við hreinsun strandlengjunnar meðfram Reykjavík.“
Í bréfi Reita er vitnað til þess að þegar liggi fyrir tillaga Faxaflóahafna að innsiglingarvita norðan Höfða á upphækkuðum grjótgarði meðfram Sæbraut. Reitir segjast vilja vinna með Reykjavíkurborg og Faxaflóahöfnum að „útvíkkun á hugtaki“ vitans og færa hann ofar. Búin yrði til ný upplifun þar sem sýning og upplýsingaveita sameinist í útsýnis- og fræðsluvita – Veðurvitanum. „Útsýnisvitinn inniheldur og er í raun sýning um eitt helsta hugðarefni Íslendinga – veðrið.“
Þess má geta að í gær skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, undir viljayfirlýsingu um umfangsmestu uppbyggingu á Kringlusvæðinu frá því Kringlan var opnuð 1987.