Bryndís ræddi um flensufaraldur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar sagði hún að bólusetningin í haust gagnist lítið gegn inflúensu B-stofninum sem hafi verið algengur í vetur. Þá veiti bóluefnið líklega aðeins 10% vernd gegn inflúensu A.
Þannig veikist jafnvel þeir sem hafi látið sprauta sig í haust. Vísbendingar séu þó um að bóluefnið veiti einhverja vörn. Bólusettir einstaklingar verði minna veikir og smitandi en aðrir.
Bryndís segir að meðgöngutími flensunnar sé stuttur, aðeins einn til tveir dagar þar til einstaklingur veikist eftir smit. Einkenni hennar séu hiti, beinverkir, höfuðverkur, hálsbólga og verkir við að hreyfa augun.
„Aðallega hiti, beinverkir og gífurlegur slappleikur. Ef þú ert með alvöru inflúensuna eru þetta veikindi í fimm til tíu daga,“ segir hún.
70.000 skammtar af bóluefni kláruðust
Lyf er til við inflúensunni en Bryndís segir að rannsóknir hafi sýnt að byrja þurfi að taka það innan sólahrings eftir smit til að það hafi áhrif á framgang veikindanna. Fáir leiti svo snemma til læknis.
Auk A- og B-stofna inflúensunnar gangi fleiri veirur nú um en bólusetningar eru ekki til fyrir þær. Þar á meðal sé svonefnd RS-veira sem er algengust í börnum en getur einnig lagst þungt á eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma, sérstaklega lungnasjúkdóma. Henni fylgir hósti og hiti.
Alls voru 65.000 skammtar af bóluefni gegn inflúensunni pantaðir til landsins í haust. Bryndís segir að þeir hafi hins vegar klárast strax. Sömuleiðis fimm þúsund skammtar til viðbótar sem landlæknir pantaði í kjölfarið.
Þrátt fyrir að inflúensan sé ekki beint hættuleg að sögn Bryndísar bendir hún á að upp undir hálf milljón manna láti lífið af völdum hennar á ári, þar á meðal tuttugu til fimmtíu þúsund í Bandaríkjunum einum.
„Þannig að það má segja að inflúensan sé ein skæðasta veirupestin sem við þekkjum,“ segir hún.