Innlent

Óvissustigi lýst yfir á Suðvesturlandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Snjórinn plægður á Suðurlandsvegi í dag. Óvissustigi hefur verið lýst yfir á svæðinu.
Snjórinn plægður á Suðurlandsvegi í dag. Óvissustigi hefur verið lýst yfir á svæðinu. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Vegagerðin hefur lýst yfir óvissustigi á þremur vegum suðvestanlands, Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum.

Veður mun versna þegar líður á kvöldið en búist er við suðaustan 15-25 m/s í kvöld, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Þá verður hvassast syðst á landinu og rigning eða slydda á láglendi en snjókoma á heiðum fram eftir kvöldi. Búist er við snörpum vindhviðum á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og undir Eyjafjöllum, allt að 35 m/s og er miðað við að mesta hvassviðrið verði frá 19 í kvöld til 2 í nótt.

Umferðaróhapp varð í Skíðaskálabrekku á Suðurlandsvegi í dag. Snjóþekja og skafrenningur er víða á vegum.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Færð er auk þess víða slæm á landinu, hálkublettir eru á höfuðborgarsvæðinu og víða á Reykjanesi. Þá er snjóþekja og skafreningur á Hellisheiði og í Þrengslum, þar sem óvissustigi hefur verið lýst yfir eins og áður sagði. Fylgjast má með færð á vegum landsins á vef Vegagerðarinnar.

Þá eru íbúar á Suðvesturlandi enn beðnir að huga að því að rigningar- og leysingarvatn komist sína leið í fráveitukerfi til að fyrirbyggja vatnstjón en óveðri kvöldsins fylgja aukin hlýindi og hláka. Spár gera auk þess enn ráð fyrir suðaustan hvassviðri eða stormi í kvöld á Suður- og Vesturlandi.

Gul viðvörun Veðurstofunnar er ennig enn í gildi um allt land. Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að lægð sé nú að nálgast landið með tilheyrandi vetrarstormi. Þá kann að vera að flugsamgöngur fari úr skorðum í kvöld og eru ferðalangar hvattir til að fylgjast vel með hugsanlegum töfum.


Tengdar fréttir

Gul viðvörun um allt land

Ný lægð nálgast nú landið með tilheyrandi hvassviðri eða stormi og úrkomu sem getur sett samgöngur úr skorðum þegar líður á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×