Körfubolti

Jordan og treyja númer tólf voru saman á Valentínusardag en það fór ekki lengra

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jordan í tólfunni.
Jordan í tólfunni.
Talan 23 er almennt tengd við besta körfuboltamann sögunnar, Michael Jordan, sem spilaði í henni nær allan ferilinn.

Jordan var skamma stund í treyju númer 45 eftir að hann sneri aftur úr hafnaboltanum en alltmenn var 23 hans tala og hefur verið það í raun síðan þrátt fyrir að vera löngu hættur.

Það var aftur á móti á þessum degi, 14. febrúar, árið 1990 sem hann spilaði í fyrsta og eina skiptið númer tólf. Það gerði hann í leik á móti Orlando Magic á útivelli.

Treyjunni hans Jordan númer 23 var stolið fyrir leik og því þurfti hann að spila í tólfunni. Hann skoraði 49 stig en Chicago tapaði leiknum með sex stigum. Jordan spilaði aldrei aftur í tólfunni.  Ástarsamband á Valentínusardag fyrir 28 árum sem aldrei varð að neinu.

Jordan og félagar fóru í úrslit austursins þetta tímabilið en töpuðu fyrir erkifjendunum í Detroit Pistons. Það var svo ári síðar sem drottnun Jordan og Chicago yfir NBA-deildinni hófst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×