Körfubolti

Sneri aftur eftir erfið meiðsli en hélt að fólkið væri að hylla annan mann | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Markelle Fultz skoraði tíu stig í endurkomunni.
Markelle Fultz skoraði tíu stig í endurkomunni. vísir/getty
Nóttin í NBA-deildinni í körfubolta vestanhafs snerist alfarið um endurkomu Markelle Fultz í lið Philadelphia 76ers en Fultz sneri aftur í nótt eftir margra mánaða meiðsli.

Fultz var valinn fyrstur í nýliðavalinu á síðasta ári en hann spilaði aðeins nokkra leik fyrir Philadelphia áður en hann meiddist í október og hefur verið frá síðan.

Þjálfari liðsins greindi frá því skömmu fyrir leik að Fultz yrði með og skoraði hann tíu stig í endurkomunni sem var þó misjöfn. Hann skaut einum svakalegum loftbolta og lét verja frá sér þrjú skot en einhvers staðar verða menn að byrja á ný.

Stuðningsmenn Philadelphia-liðsins voru heldur betur ánægðir með að fá strákinn aftur og öskruðu: „Fultz!, Fultz!, Fultz!“

Hann fattaði þó ekki að þeir væru að kalla nafn hans. „Ég hélt þeir væru að segja Nick Foles [leikstjórnandi NFL-meistara Philadelphia Eagles]. En síðan fattaði ég að þeir voru að kalla mitt nafn. Það var geggjað. Ég elska þetta fólk,“ sagði Markelle Fultz eftir leik.

76ers-liðið hefur verið í mikilli uppbyggingu undanfarin ár sem er heldur betur að skila sér en liðið er í fjórða sæti austursins með 43 sigra og 30 töp og á leiðinni í úrslitakeppnina.

Úrslit næturinnar:

Charlotte Hornets 137-128

Detroit Pistons - LA Lakers 112-106

Philadelphia 76ers - Denver Nuggets 123-104

Minnesota Timberwolves - Memphis Grizzlies 93-101

Phoenix Suns - Boston Celtics 94-102

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×