Það er útlit fyrir fremur hæga suðlæga átt og skúrir eða dálitla rigningu um land allt í dag en þó síst norðaustan til fyrri part dags.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar þar sem segir jafnframt að spár á morgun geri ráð fyrir að vindur verði norðlægur og bjart verði á Suður- og Vesturlandi. Það er hins vegar spáð skýjuðu veðri og rigningu af og til norðan og austan til.
„Þokkalega hlýtt miðað við árstíma, að 15 stigum, hlýjast fyrir norðan í dag en syðra á morgun. Síðan er að sjá að við verðum í SA-lægari átt fram á helgi. Úrkoma liggur að mestu leyti skammt vestur af landinu en þó má búast að rigningin nái inn á land af og til um landið sunnan- og vestanvert. Áfram fremur milt,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga eru annars þessar:
Suðlæg átt, 3-10 m/s og dálítil rigning eða skúrir, þó síst á NA-landi fyrripartinn. Hiti 8 til 16 stig að deginum, hlýjast NA-til.
Norðlæg eða breytileg átt 3-8 á morgun, dálítil rigning N- og A-til, en annars bjart á köflum. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast syðst.
Á miðvikudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt og skýjað um morguninn, en léttir síðan til S- og V-lands. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast syðst.
Á fimmtudag:
Suðaustanátt, 8-15 m/s og rigning með köflum V-lands, hvassast á annesjum, en annars hægari og víða léttskýjað. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast á N-landi.
Á föstudag og laugardag:
Fremur hæg suðaustan- og austanátt og úrkomulítið, en áfram léttskýjað N-lands. Hiti víða 10 til 15 stig að deginum.
Á sunnudag:
Suðlæg átt og rigning, en lengst af þurrt NA-til. Áfram milt veður.
„Þokkalega hlýtt miðað við árstíma“
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
