Skoðun

Fjölgum hlutastörfum!

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar
Undanfarið hafa borist fréttir af því hversu fá vinnuúrræði séu í boði fyrir fólk með skerta starfsgetu. Það eru ömurlegt að lesa um hvað bíður ungs fólks með þroskahömlun eftir að námi lýkur. Fólkið þarfnast þess að takast á við störf við hæfi. Raunin er sú að því er boðið upp á bið eftir „úrræðum“ eða að hanga heima sem er mjög einangrandi. Það er eins og samfélagið hafi ekki gert ráð fyrir því að fólk með fötlun geti verið fullt af krafti og vilji leggja sitt af mörkum í formi vinnu og virkrar samfélagsþátttöku.

Fatlað fólk á að fá sömu tækifæri

Samfélagið þarf að endurspegla fjölbreytni á öllum sviðum og allir geta lagt sitt af mörkum. Það orkar tvímælis að ekki hafi verið gert stórátak í að auka atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu í ljósi góðs atvinnuástands undanfarin ár. Að auki eru yfirvöld með svo stífar aðhaldskröfur á stofnanir að ekkert svigrúm er til staðar til að ráða fólk með skerta starfsgetu í hlutastörf. Í skýrslunni „Virkt samfélag“ sem Öryrkjabandalag Íslands gaf út árið 2016 kom fram að auglýst hlutastörf árið 2015 hefðu verið á bilinu 10-30%, sem er í samræmi við tölur frá Hagstofu Íslands, en hlutfall hlutastarfa tímabilið 2000-2015 var um 22%. Þetta hlutfall er einfaldlega of lágt sé miðað við þarfir fólks sem getur einungis sinnt hlutastarfi.

Það er mikilvægt að fjölga hlutastörfum, þannig að fólk með skerta starfsgetu geti tekið þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Fatlað fólk á að fá sömu tækifæri og aðrir til að vera þátttakendur á vinnumarkaði. Því legg ég til að fjölmennum opinberum vinnustöðum verði gert skylt að ráða ákveðið hlutfall starfsfólks með skerta starfsgetu í hlutastörf við hæfi. Þessi aðferð myndi án efa hafa jákvæð áhrif á vinnustaðinn, jákvæð áhrif á samfélagið þar sem hvert okkar skiptir máli.




Skoðun

Sjá meira


×