Á morgun gæti svo vindur orðið til trafala þar sem djúp lægð virðist ætla að koma nokkuð nærri landinu með talsverðu hvassviðri víða um land, þá einkum norðan og austan til, og rigningu sunnan til á landinu.
Segir í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar að seint í kvöld muni ganga í hvassa suðaustanátt með talsverðri rigningu, fyrst syðst á landinu. Í fyrramálið snýst vindáttin svo í suðvestan með skúrum og er útlit fyrir 15 til 23 metra á sekúndu síðdegis á morgun.
Þá geta vindhviður til fjalla náð allt að 40 metrum á sekúndu seint annað kvöld, einkum á Vestfjörðum, Tröllaskaga og Austfjörðum.
Veðurhorfur á landinu:
Suðvestan 8-15 m/s og skúrir en rofar til norðaustan og austanlands með morgninum. Heldur hægari um tíma í kvöld en vaxandi suðaustanátt með talsverðri rigningu nálægt miðnætti, fyrst við suðurströndina. Snýst í suðvestan 10-18 m/s með skúrum í fyrramálið en 15-23 m/s annað kvöld og sums staðar samfelldari úrkoma en yfirleitt þurrt NA-til. Hiti 2 til 8 stig.
Á laugardag:
Suðvestan 15-23 m/s með rigningu og síðan skúrum en þurrt að kalla um landið norðaustanvert. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á sunnudag:
Vestlæg átt, 8-15 m/s og skúrir eða él, en léttskýjað austantil á landinu. Hiti 1 til 6 stig.
Á mánudag:
Vestan 5-13. Rigning með köflum en þurrt að mestu á Austurlandi. Hiti breytist lítið.