Michael gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum í gær sem fjórða stigs fellibylur. Einungis örfáum metrum á sekúndu munaði að vindhraðinn væri svo mikill að flokka mætti fellibylinn á fimmta stigi. Vindhraðinn mældist tæpir sjötíu metrar á sekúndu þegar stormurinn gekk á land, skammt austan við bæinn Mexico Beach.
Engar fregnir höfðu borist af manntjóni vegna stormsins þegar Fréttablaðið fór í prentun í gær. Hins vegar hafði Rick Scott ríkisstjóri lýst yfir áhyggjum sínum af þeim sem ekki yfirgáfu svæðið og sagðist óttast um líf þeirra.
Alls var á fjórða hundrað þúsunda gert að yfirgefa heimili sín vegna hamfaranna. Scott greindi jafnframt frá því að björgunarstarfsfólk hefði verið í viðbragðsstöðu.
Myndir og myndbönd sem birtust frá svæðinu þar sem Michael reið yfir í gær sýndu mikla eyðileggingu. Greint var frá rafmagnsleysi víða og þykir víst að tjón á eignum og innviðum verði mikið.
Þetta er öflugasti stormur, sé miðað við vindhraða, sem hefur gengið á land í Bandaríkjunum frá því að Andrew skók Flórída árið 1992. Sömuleiðis þykir sögulega merkilegt að þetta sé í fyrsta skipti í skráðri sögu sem fjórða stigs fellibylur gengur á land í hinu svokallaða pönnuskafti Flórída, ræmunni sem gengur vestur af Flórídaskaga sjálfum og að borginni Pensacola.
Fjórða stigs fellibyljir eru ekki algengir í Bandaríkjunum. Samkvæmt umfjöllun The Weather Channel voru síðustu slíku fellibyljir Harvey og Irma á síðasta ári en síðan þarf að fara meira en áratug aftur í tímann til að finna dæmi um að svo öflugir stormar hafi gengið á land.
Veðurfræðingur The Weather Channel sagði það afar merkilegt við Michael að stormurinn hafi í raun aldrei veikst frá því kerfið myndaðist. Hann hafi raunar náð hápunkti sínum einmitt þegar hann gekk á land. Flestir fellibyljir á Mexíkóflóa nái hápunkti sínum hins vegar yfir flóanum.
Helsta hættan sem fylgdi fellibylnum Florence, sem gekk á land í Norður-Karólínu í september, stafaði af mikilli úrkomu.
Hins vegar eru mestar áhyggjur af miklum vindhraða Michaels og sérstaklega þeim sjávarflóðum sem stormurinn veldur. Samkvæmt bandarískum spám stefndi í gær í að slík flóð gætu náð rúmlega fjögurra metra dýpi, til að mynda við bækistöðvar flughersins í Tyndall.
Bandaríska fellibyljamiðstöðin (NHC) spáir því að næst muni Michael halda áfram í norðaustur yfir Georgíu og Karólínuríkin sem hitabeltisstormur. Þaðan mun stormurinn síðan sveigja út á Atlantshaf í átt að Bretlandseyjum.

