Erlent

Andrew sviptur síðustu hernaðartigninni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Andrew er ekki lengur Andrés prins.
Andrew er ekki lengur Andrés prins. EPA

Varnarmálaráðuneyti Breta vinnur að því að svipta Andrew Mountbatten Windsor síðustu hernaðartign sinni. Andrew, sem var áður þekktur sem Andrés prins, var sviptur prins-titli sínum fyrr í vikunni.

Andrew er yngri bróðir Karls Bretakonungs en á fimmtudag var tilkynnt að hann fengi ekki lengur að halda titlinum prins og þyrfti að yfirgefa heimilið sitt, Royal Lodge, þar sem hann hefur búið síðustu áratugi.

Nú vinnur varnarmálaráðuneytið að því að svipta Andrew heiðursnafnbótinni varaaðmíráll í breska flotanum. Hann gaf upp allar aðrar nafnbætur í tengslum við herinn árið 2022 þegar hann var ásakaður um að hafa framið kynferðisbrot.

„Konungurinn hefur gefið í skyn að þetta væri skref sem við ættum að taka og við erum að gera það núna,“ sagði John Healey, varnarmálaráðherra Breta í samtali við breska ríkisútvarpið.

Ástæðan fyrir því að Andrew hefur verið sviptur öllum titlum eru tengsl hans við kynferðisafbrotamanninn Jeffrey Epstein. Að auki ásakaði Viginía Giuffre Andrew fyrir að hafa brotið á sér þegar hún var á táningsaldri. Andrew hefur alltaf neitað sök.

Andrew starfaði fyrir flota breska hersins í 22 ár og barðist í Falklands-stríðinu.


Tengdar fréttir

Andrés ekki lengur prins og látinn yfirgefa heimili sitt

Andrés, yngri bróðir Karls Bretakonungs hefur nú verið sviptur prins-titli sínum og þarf að yfirgefa hið sögulega Royla Lodge í grennd við Windsor kastala, hvar hann hefur búið síðustu áratugi.

Andrés prins af­salar sér öllum titlum í kjölfar ásakana

Andrés prins hefur afsalað sér öllum titlum og heiðursmerkjum, þeirra á meðal hertogatitlinum. Yfirlýsingin kemur í kjölfar umfjöllunar um vinskap hans við látna barnaníðinginn Jeffrey Epstein og meintan kínverskan njósnara.

Demókratar vilja yfir­heyra Andrew

Fjórir Demókratar í rannsóknarnefnd á vegum bandaríska þingsins sem fer með rannsókn Epstein málsins, vilja fá að yfirheyra Andrew Mountbatten Windsor um tengsl hans við Epstein. Nefndinni er stýrt af Repúblikönum sem hafa ekki gefið upp hvort þeir taki undir kröfuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×