Gular viðvaranir eru í gildi fyrir nánast allt landið vegna austan og norðaustan storms og er vegfarendum bent á að fara varlega þar sem hviður geta farið upp í 25 til 35 metra á sekúndu þegar mest lætur.
Austan- og norðaustan áttin í dag verður þannig allhvöss eða hvöss í dag með tilheyrandi stormi víða sunnan og vestan til á landinu. Þá er spáð dálítilli snjókomu norðanlands og rigningu syðri en það mun bæta í úrkomuna seinni partinn.
„Hlýnandi, hiti 1 til 8 stig síðdegis en í kringum frostmark um landið norðanvert.
Norðaustan 13-18 og rigning eða slydda á Vestfjörðum á morgun. Mun hægari og rigning í öðrum landshlutum, einkum á Austfjörðum og Suðausturlandi. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast syðst.
Austanátt með rigningu og mildu veðri á fimmtudag, en úrkomulítið síðdegis,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu:
Gengur í austan og norðaustan 18-25 undir Eyjafjöllum og í Öræfum, síðar einnig NV-til, en víða 13-20 annars staðar. Dálítil snjókoma fyrir norðan og rigning syðra, en bætir í úrkomu seinni partinn. Hlýnandi, hiti 1 til 8 stig síðdegis en í kringum frostmark norðan heiða.
Mun hægari og rigning með köflum á morgun, einkum á Austfjörðum og SA-landi, en allhvöss eða hvöss norðaustanátt með slyddu eða rigningu á Vestfjörðum. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst.
Á miðvikudag:
Norðaustan 13-18 m/s og slydda á Vestfjörðum fram eftir degi, annars talsvert hægari og rigning, en þurrt að kalla á SV- og V-landi síðdegis. Hiti 1 til 8 stig.
Á fimmtudag:
Austan 8-15 með rigningu S- og A-lands og einnig á Vestfjörðum. Hiti 3 til 8 stig.
Á föstudag og laugardag:
Austlæg átt, rigning og milt veður, en þurrt N- og V-lands.
Á sunnudag:
Norðaustanátt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt SV-lands. Hiti 2 til 7 stig.