Erlent

Þunnur meirihluti hjá Netanjahú

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Vísir/AP
Vopnahléið sem Ísraelar sömdu um við Hamas-samtökin eftir átök undanfarinna daga á Gasasvæðinu dregur dilk á eftir sér. Í gær tilkynnti Avigdor Lieberman varnarmálaráðherra um afsögn sína í mótmælaskyni. Lieberman sagði að með gerð vopnahlésins væru Ísraelar að „láta undan kröfum hryðjuverkamanna“ og að hann myndi ekki geta horft í augu kjósenda ef hann héldi áfram starfi sínu.

Lieberman er leiðtogi flokksins Ísrael Beitenu sem hefur verið hluti ríkisstjórnar Benjamíns Netanjahú forsætisráðherra. Með afsögn Liebermans tekur flokkurinn sér hins vegar sæti í stjórnarandstöðu og er meirihluti ríkisstjórnarinnar á þingi orðinn ansi þunnur; 61 sæti gegn 59 sætum stjórnarandstöðu.

Þótt Lieberman hafi kallað eftir nýjum kosningum í gær sagði Jonatan Urich, upplýsingafulltrúi Líkúd, flokks Netanjahús, að það væri óþarfi. Ríkisstjórnin gæti haldið áfram út kjörtímabilið.

Netanjahú varði gerð vopnahlésins í gær. Sagði Hamas hafa grátbeðið um að vopnahlé yrði gert. Á minningarathöfn fyrir David og Paula Ben-Gurion sagði forsætisráðherrann að hann vildi ekki tjá sig um framtíð Gasasvæðisins en að hann myndi hafa hagsmuni Ísraela í forgangi.

Nú tekur Netanjahú við varnarmálaráðuneytinu af Lieberman. Í ritstjórnargrein Jerusalem Post vegna þessa sagði að slíkt ætti ekki að líðast. „Það þurfa að vera takmörk fyrir því hvað forsætisráðherrann getur gert,“ sagði í greininni og var enn fremur minnt á að Netanjahú væri einnig utanríkisráðherra.


Tengdar fréttir

Umfangsmiklar árásir í Ísrael og á Gasa

Hernaðaryfirvöld Ísrael segjast hafa gert loftárárásir á um hundrað skotmörk á Gasa-ströndinni í nótt. Það var gert eftir að Hamas-liðar skutu um 370 flugskeytum að Ísrael í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×