Körfubolti

Houston Rockets strax búið að gefast upp á Carmelo Anthony

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmelo Anthony.
Carmelo Anthony. Vísir/Getty
Carmelo Anthony hefur misst af tveimur síðustu leikjum með Houston Rockets í NBA-deildinni og ástæðan eru sögð vera veikindi. Orðrómurinn er hinsvegar að Houston Rockets sé að leita að leið til að losa sig við leikmanninn.

Það er óhætt að segja að Houston Rockets hafi gengið illa með Carmelo Anthony innanborðs á þessu tímabili og frammistaða þessa verðandi heiðurshallarmeðlims hefur ekki verið upp á marga fiska.

ESPN slær því upp í dag að liðsfélagar Carmelo Anthony hjá Houston Rockets haldi að hann hafi spilað síðasta leik sinn fyrir félagið.





Forráðamenn Houston Rockets hafa hafnað þessum fréttum og halda enn fram að Carmelo Anthony muni spila aftur með liðinu þegar hann nær sér af veikindunum en fréttirnar úr leikmannaherbúðum Houston Rockets segja hinsvegar allt aðra sögu.

Í frétt ESPN segir að Houston Rockets leiti nú leiða til að losa sig við Carmelo Anthony á „virðulegan“ hátt fyrir þennan 34 ára leikmann sem er nú aðeins skugginn af sjálfum sér frá því fyrir nokkrum árum.

Carmelo Anthony hefur spilað 10 leiki með Houston og er með 13,4 stig og 5,4 fráköst að meðaltali í leik en hann hefur aðeins hitt úr 40 prósent skota sinna. Houston tapaði sex af þessum tíu leikjum.

Lélegt skotval og skelfilegur varnarleikur er aftur á móti það er skaðlegast fyrir lið Houston sem hefur ekki náð að fylgja eftir flottri frammistöðu sinni á síðustu leiktíð þegar liðið var eitt allra besta lið NBA-deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×