Innlent

Leggja á­herslu á að sett verði upp á­ætlun fyrir við­ræðurnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vilhjálmur Birgisson, Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir eru formenn félaganna þriggja sem nú eru í samfloti í kjaraviðræðunum.
Vilhjálmur Birgisson, Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir eru formenn félaganna þriggja sem nú eru í samfloti í kjaraviðræðunum.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, býst ekki við löngum fundi hjá ríkissáttasemjara í dag. Fundur sameiginlegrar samninganefndar VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins hófst í húsakynnum sáttasemjara klukkan 11 í morgun.

Í samtali við Vísi segist Vilhjálmur telja að sáttasemjari muni kalla eftir gögnum og upplýsingum, hverjar kröfur verkalýðsfélaganna séu og hvar deiluaðilar eru staddir í samningaferlinu.

„Við munum leggja áherslu á að það verði sett á laggirnar einhvers konar plan um að reyna að hraða þessu ferli eins og kostur er því það er mikið í húfi,“ segir Vilhjálmur.

Félögin gera kröfur um afturvirkni samninga frá 1. janúar 2019 og vilja að það verði ákveðið strax í upphafi viðræðna að svo verði.

Vilhjálmur segist búast við því að samninganefndin muni impra á þessu atriði. Þetta skipti miklu máli því milljarðar séu í húfi fyrir launafólk fyrir hvern mánuð.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gær að ákvörðun um afturvirkni og önnur stór atriði væri vanalega tekin í lok kjaraviðræðna.

Hann velti upp þeirri spurningu að ef SA myndi fallast á kröfuna um afturvirkni þá mætti spyrja hvort félögin væru á móti tilbúin að gefa frá sér skuldbindandi yfirlýsingu þess efnis að þau muni ekki gera kröfu um afturvirkni ef þau boði til verkfalla.

Vilhjálmur segir spurður út í þetta að það komi ekki til greina af hálfu félaganna að gefa frá sér verkfallsvopnið.

„Við höfum svo sem ekki rætt það með formlegum hætti en ég get ekki ímyndað mér að það komi til greina enda er það eina vopnið sem íslenskt  lágtekjufólk hefur,“ segir Vilhjálmur.


Tengdar fréttir

Félögin þrjú gera kröfu um afturvirkni

Efling, VR og Verkalýðsfélag Akraness funda með SA í húsakynnum ríkissáttasemjara á morgun. Félögin slitu sig nýverið úr samfloti með Starfsgreinasambandinu. Formaður VLFA væntir ekki stórtíðinda af fundinum en félögin muni ganga hart eftir svörum frá SA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×