Þar segir að eindregin, vætusöm og hlý sunnan átt verði í dag, á morgun, á föstudag og svo framan af laugardegi. Lengst af verður þó þurrt og heldur suðvestlægari vindur norðaustan til á landinu.
Vindstyrkurinn verður mismikill næstu daga; 10 til 15 metrar á sekúndu í dag en bætir í vind síðdegis og í kvöld.
Þannig má búast við hvassviðri um vestanvert landið í nótt, 15 til 20 metrum á sekúndu en slær sums staðar í storm á norðvestanverðu landinu.
Vindur verður svo hægari annað kvöld, eða víðast hvar fimm til tíu metrar á sekúndu en bætir heldur í vindinn á föstudag.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á fimmtudag:
Sunnan 10-15 m/s en 15-23 um landið norðvestanvert fram að hádegi. Rigning eða súld, en þurrt norðaustantil á landinu. Hiti 5 til 11 stig.
Á föstudag:
Sunnan og suðvestan 5-13 og dálítil rigning eða súld, en úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Hiti 4 til 9 stig.
Á laugardag:
Sunnan 10-15 og víða rigning, en vestlægari síðdegis og snjókoma eða él. Kólnandi, hiti um og undir frostmarki um kvöldið.