Skoðun

Julen og framtíð heimsins

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Til eru fréttir sem setja sálarlífið á annan endann. Þessu fengu Spánverjar að finna fyrir í þrettán daga þegar örlögin undu fram eina þá mestu harmsögu sem hægt er að hugsa sér.

Tveggja ára drengur, Julen að nafni, dettur í borholu og liggur á sjötíu metra dýpi þar sem ekki er hægt að ná til hans. Brunnurinn er á toppi fjalls nokkurs við bæinn Totalán og var nú hafist handa við að grafa eina þrjátíu metra niður í fjallið og þaðan var síðan boruð hola samhliða þeirri sem barnið lá í. Því næst voru gerð göng úr þeirri nýju yfir í þessa ólukkans holu sem boruð hafði verið í leyfisleysi og op hennar, einhverra hluta vegna, óvarið fyrir harmleikjum sem þessum. Að þessu loknu var loks hægt að komast að líki drengsins.

En allir harmleikir bjóða líka upp á nýja von og hana er ekki erfitt að finna í þessu tilviki. Með samtakamætti allra þeirra sem að þessu komu, og lágu þar íbúar þorpsins ekki á liði sínu, var mögulegt að vinna verk á nokkrum dögum sem undir venjulegum kringumstæðum hefði tekið nokkra mánuði. Það er að segja, einn ganginn enn sannast að þegar mikið liggur við er hægt að áorka því sem áður var talið ofar mannlegum mætti. Þetta er afar holl hugvekja nú þegar heimurinn er á heljarþröm sökum græðgi okkar. Hins vegar, hvað þessa veröld varðar þá er nokkuð síðan að þörfin á þessum samtakamætti gerði vart við sig en við erum ennþá að funda um málið og að standa í stappi við þverhausa eins og Trump sem halda að til einhvers sé að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í hann.




Skoðun

Sjá meira


×