Innlent

„Menn eru frekar hugsi, svo ég orði það bara pent“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristján Þórður Snæbjarnarson er hér fyrir miðju með öðrum í samninganefnd iðnaðarmanna fyrir fund með SA í síðustu viku.
Kristján Þórður Snæbjarnarson er hér fyrir miðju með öðrum í samninganefnd iðnaðarmanna fyrir fund með SA í síðustu viku. vísir/vilhelm
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og talsmaður þeirra iðnaðarfélaga sem eru í samfloti í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, segir verulega skiptar skoðanir á meðal iðnaðarmanna um kjarasamningana sem undirritaðir voru í síðustu viku.

Hann segir ekkert að því að nota krónutöluhækkanir til þess að hækka laun en þær sem samið var um séu þó frekar í lægri kantinum.

 

Iðnaðarmenn áttu fund með SA hjá ríkissáttasemjara á fimmtudaginn í síðustu viku og hefur næsti fundur verið boðaður á miðvikudaginn klukkan 10.

Kristján segir að málum vindi frekar hægt fram en verið sé að fara yfir stöðuna fyrir næsta fund og meta næstu skref sem iðnaðarmenn vilji taka í viðræðunum.

Krónutöluhækkanir setji iðnaðarmenn í erfiða stöðu

Eftir að Starfsgreinasambandið og VR undirrituðu kjarasamninga við SA í síðustu viku þar sem kveðið er á um krónutöluhækkanir hefur Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, minnt á þá kröfu félagsins að menntun verði metin til launa. Þá hefur hún bent á það að krónutöluhækkanir samræmist illa kröfunni um að menntun sé metin til launa.

Spurður út í þetta, þar sem félagsmenn iðnaðarfélaganna eru margir með sérmenntun, og hvort að þetta sé eitthvað sem horft sé til af þeirra hálfu í kjaraviðræðunum segir Kristján svo vera.

„Það er ástæðan fyrir því að við erum að reyna að meta í raun og veru hvaða áhrif þetta hefur hjá okkur og hvernig við eigum að taka næstu skref. Það er nákvæmlega út af þessu. Þetta setur okkur auðvitað í erfiða stöðu hvað þetta varðar. Hins vegar er ekkert að því að nota krónutölur og við höfum gert það áður að vera með krónutöluhækkanir þó að það sé búið að njörva svolítið niður samt sem áður upphæðirnar. Þær eru svona frekar í lægri kantinum þannig að við erum að reyna að meta hvernig við getum látið þetta passa hjá okkur. Það er eitthvað sem við þurfum að finna út úr,“ segir hann.

Gæti orðið snúið að ná samningi sem félagsmenn verða sáttir við

Þannig að þið eruð opnir fyrir krónutöluhækkunum en þær þyrftu þá mögulega að vera hærri?

„Jú, við erum að reyna að meta það hvernig við getum látið þetta passa hjá okkur. En útgangspunkturinn hjá okkur er að félagsmenn munu þurfa að samþykkja samningana hjá okkur þannig að við þurfum að komast á þann stað að félagsmenn verði sáttir. Það getur orðið snúið.“

Aðspurður hvort hann geti eitthvað metið það hvernig stemningin sé innan raða iðnaðarmanna með þá leið sem farin var í síðustu viku segir hann eðlilega mjög skiptar skoðanir. Þó sé kannski frekar erfitt að segja til um það akkúrat núna.

„En það eru verulega skiptar skoðanir og menn eru frekar hugsi, svo ég orði það bara pent,“ segir Kristján.


Tengdar fréttir

Undrast asa við frágang kjarasamninga

Formaður Eflingar segir að félagið hafi verið í virkum samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins alveg fram á síðustu stundu fyrir undirskrift. Náðst hafi fram mikilvæg atriði á lokametrunum. Ekki sátt um auknar heimildir trúnaðarmanna á vinnustöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×