Stoltenberg er í Washington ásamt utanríkisráðherrum allra 29 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins til að fagna því að 70 ár eru frá stofnun bandalagsins.
Ísland er meðal stofnþjóða og tók þátt í undirritun stofnsáttmála bandalagsins í Washington fyrir 70 árum. Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra mun taka þátt í hátíðarfundi Atlantshafsbandalagsins á morgun.
Í morgun fundaði Stoltenberg með Donald Trump Bandaríkjaforseta áður en hann hélt á Bandaríkjaþing. Til að ávarpa sameiginlegan þingfund þingdeildanna tveggja.
„Á morgun eru sjötíu ár frá því að stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins var undirritaður í þessari merku borg,“ sagði Stoltenberg. „Þann dag sagði Truman Bandaríkjaforseti að hann vonaðist til að skapa skjöld gegn ágengni og óttanum gegn ágengni.“
Hann sagði Atlantshafið ekki greina bandalagsríkin í sundur heldur sameinaði þau. Í því samhengi virðist hann ekki hafa staðist mátið við að koma norrænum landkönnuðum að í ræðu sinni.
„Fyrir Norðmann eins og mig er það Atlantshafið sem skilgreinir hver við erum. Það var jú norrænn maður, Leifur Eiríksson, sem var fyrstur Evrópumanna til að ná ströndum Ameríku. Fyrir næstum þúsund árum síðan. Reyndar myndu fleiri vita af því ef hann hefði ekki yfirgefið álfuna svo fljótt og ákveðið að segja engum frá því.“