Erlent

Segja þrjá úr innsta hring Maduro hafa samþykkt að hann þyrfti að fara frá

Birgir Olgeirsson skrifar
Nicolás Maduro og Vladimir Padrino.
Nicolás Maduro og Vladimir Padrino. Vísir/Getty
Þrír úr innsta hring forseta Venesúela eru sagðir hafa verið sammála stjórnarandstöðunni að koma þyrfti forsetanum frá völdum, en hafi síðar dregið í land.

Þetta hefur fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC eftir bandarískum embættismönnum í kjölfar þess að leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Juan Guaidó, kallaði eftir aðstoð hersins í Venesúela við að steypa Nicolás Maduro af stóli.

Mótmælendur þyrptust á götur höfuðborgarinnar Caracas í dag til að sýna ýmist Guaidó eða Maduro stuðning.

Leiðtogara hersins í Venesúela eru sagðir standa með Maduro og saka Guaidó um tilraun til valdaráns.

Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, John Bolton, gat ekki fært neinar sannanir fyrir því að stuðningsmenn Maduro væru á barmi þess að yfirgefa hann. Elliot Abrams, erindreki Bandaríkjanna í Venesúela, hafði það sama að segja samkvæmt BBC.

Varnarmálaráðherra Venesúela, Vladimir Padrino, birtist á skjám landsmanna Venesúela í dag umvafinn hermönnum þar sem hann ítrekaði stuðning við Maduro.

Bolton heldur því hins vegar fram að Padrino hafi verið einn þeirra sem var viðloðinn viðræður við stjórnarandstöðuna fyrir þremur mánuðum.

Nefndi Bolton einnig forseta Hæstaréttar Venesúela, Maikel Moreno, og yfirmann öryggisliðs forsetans, Ivan Rafael Hernandez Dala.

Bolton segir þessa þrjá hafa samþykkt að valdið yrði fært frá Maduro til Guaidó á friðsælan hátt. „Þeir samþykktu allir að Maduro þyrfti að fara,“ sagði Bolton á blaðamannafundi í Washington.

Guaidó hefur notið stuðnings yfirvalda í Bandaríkjunum, Bretlandi og fjölda annarra þjóða, þar á meðal íslenskra yfirvalda, sem réttmætur leiðtogi Venesúela.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×