Innlent

Vonast til að geta opnað veginn í Landmannalaugar á laugardag

Birgir Olgeirsson skrifar
Mynd sem tekin var við Landmannalaugar í morgun.
Mynd sem tekin var við Landmannalaugar í morgun. Viktor Einar
Vegagerðin vonast til að geta opnað veginn í Landmannalaugar á laugardag ef áætlanir ganga eftir. Verði það raunin opnar vegurinn í ár mun fyrr en síðastliðin fimm ár. Á árunum 2014 til 2018 var vegurinn í Landmannalaugar opnaður í fyrsta lagi 18. júní, í síðasta lagi 3. júlí en að meðaltali 1. júlí.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir starfsmenn Vegagerðarinnar búna að kanna aðstæður og ef fram fer sem horfir verður hægt að opna veginn á laugardag, 25. maí.

Landmannalaugar draga nafn sitt af heitri laug sem kemur undan Laugahrauni. Eru Landmannalaugar þekktasta náttúruperla friðlands að Fjallabaki, en um er að ræða gróðurvin milli Laugahrauns, Jökugígakvíslar og Suðurnáms.

Alveg fram á síðustu öld voru gangnamenn nánast þeir einu sem fóru í Landmannalaugar en smátt og smátt tóku fleiri að venja komur sínar þangað. Hafa böð í leir og volgu vatni ásamt möguleikum til gönguferða í einstöku umhverfi gert Landamannalaugar að einum eftirsóttasta ferðamannastað hálendisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×