Stjórnvöld á Bretlandi ákváðu í gær að banna sölu á öllum verkfærum sem óeirðalögreglumenn nota, til að mynda táragasi, til Hong Kong. Sömuleiðis var kallað eftir rannsókn á átökum lögreglu og mótmælenda í kínverska sjálfstjórnarhéraðinu.
Metfjöldi hefur safnast saman á götum úti í Hong Kong til þess að mótmæla frumvarpi sem myndi heimila framsal til meginlands Kína. Frumvarpið hefur verið sett á ís, að minnsta kosti í bili, en afsagnar Carrie Lam, æðsta stjórnanda Hong Kong, hefur verið krafist vegna málsins.
„Það sem gerist í Hong Kong er vísbending um framtíð Kína. Ég vil í dag hvetja stjórnvöld í Hong Kong til þess að koma á og óháðri alvörurannsókn á því ofbeldi sem við höfum getað fylgst með,“ sagði Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands. Hann er annar tveggja sem Íhaldsflokksmenn geta nú valið sem nýjan leiðtoga flokksins og þar með forsætisráðherra.
Að sögn Hunts munu Bretar ekki flytja út þann búnað sem áður var minnst á fyrr en stjórnvöld í Hong Kong hafa fullvissað Breta um að tekið hafi verið á meintum brotum. „Niðurstöður rannsóknarinnar munu hafa mikið að segja um framtíðarútflutning fyrir lögregluna í Hong Kong,“ sagði Hunt enn fremur.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-10-05T144457.831Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-10-05T144408.023Z-keflavik.png)