Ísland mætir Sviss í lokaleik sínum í forkeppninni á morgun. Svo lengi sem íslenska liðið tapar ekki með meira en 19 stiga mun vinnur það riðilinn.
„Það er aldrei neitt öruggt í þessu en þeir eru í góðri stöðu. Ég veit að liðið ætlar sér að vinna en það getur oft setið í undirmeðvitundinni að mega tapa með ákveðið mörgum stigum og verið erfitt. Ég vona bara að menn séu gíraðir í að klára verkefnið og klára þetta með stæl,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari karlaliðs KR, í samtali við Arnar Björnsson í Sportpakkanum.
Ingi segir að frammistaða Íslands gegn Portúgal hafi komið sér á óvart.
„Ég átti von á öðruvísi leik. Þetta var einn besti leikur sem ég hef séð íslenska liðið spila í langan tíma. Vörnin var mjög þétt og við hittum betur en við höfum gert. Svo var mjög jákvætt að menn nýttu tækifærið til ganga frá leiknum þegar það gafst,“ sagði Ingi.
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.