Vísindamennirnir kynntu niðurstöður sínar í morgun og segja að mögulega hafi verið um risavaxinn ál að ræða.
BBC segir frá því að vísindamennirnir hafi reynt að flokka allar þær lífverur sem hafist við í stöðuvatninu með því að sækja DNA úr fjölda vatnssýna.
Neil Gemmell, prófessorinn sem leiddi rannsóknina, segir að engin gögn hafi fundist um tilvist risavaxinna dýra í vatninu. Ekkert bendir til að svokallaðar svaneðlur (e. plesiosaur) hafi hafist við í vatninu eða þá stærri fiskar eins og styrja. Sömuleiðis útilokuðu vísindamennirnir steinbít eða grænlandshákarl.
Nessie verdict: Not a plesiosaur, not a giant catfish, not a sturgeon. But it COULD be a giant eunuch eel. pic.twitter.com/KqwQgZcb0G
— Lloyd Burr (@LloydBurr) September 5, 2019
Mögulega risaáll
Að sögn Gemmell var markmið rannsóknarinnar ekki að finna Nessie, eins og „skrímslið“ hefur verið kallað, heldur að auka þekkingu um dýra- og plöntulíf í Loch Ness. Þjóðsagan um Loch Ness skrímslið hefur verið við lýði í um 1.500 ár.Vísindamennirnir fundu lífsýni úr evrópskum ál og segja að ljóst sé að mikið hafi verið og sé um fisktegundina í vatninu. „Þannig, er mögulega um risaál að ræða,“ spyr Gemmell.
Hann segir rannsóknina ekkert gefa upp um stærð álanna, en magn fiskanna í vatninu sé slíkt að ekki sé hægt að útiloka að risavaxnir álar hafi verið í vatninu. „Þess vegna getum við ekki útilokað þann möguleika að það sem fólk sér og telur vera Loch Ness skrímslið gæti verið risaáll,“ segir Gemmell.
Um 400 þúsund ferðamenn heimsækja Loch Ness á ári hverju.