Innlent

17 stig sunnan heiða en lækkandi hiti norðan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Á sunnudag og mánudag er útlit fyrir hægan vind á mestöllu landinu og léttskýjað nokkuð víða.
Á sunnudag og mánudag er útlit fyrir hægan vind á mestöllu landinu og léttskýjað nokkuð víða. vísir/vilhelm
Útlit er fyrir norðaustan kalda eða strekking í dag með súld eða dálítilli rigningu norðan- og austanlands. Hiti fer þar lækkandi og verður einungis á bilinu fimm til tíu stig þegar líður á daginn.

Eins og algengt er í norðanátt léttir til sunnan heiða og þar verður hlýrra, eða allt að sautján stig á Suðurlandi þegar best lætur, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

„Á morgun má gera ráð fyrir svipuðu veðri áfram, nema hvað hitinn þokast niðurávið um eina til tvær gráður þegar svalara loft berst smám saman yfir landið. Annað kvöld fer síðan að lægja.

Á sunnudag og mánudag er útlit fyrir hægan vind á mestöllu landinu og léttskýjað nokkuð víða,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur næstu daga:

Á laugardag: Norðaustan 8-13 m/s. Skýjað og dálítil væta norðan- og austanlands, hiti 5 til 10 stig. Bjartviðri sunnan heiða og hiti að 15 stigum.

Á sunnudag: Norðlæg eða breytileg átt 3-8 og víða léttskýjað, en skýjað með austurströndinni og smáskúrir syðst á landinu. Kólnandi veður.

Á mánudag: Hæg norðlæg átt og léttskýjað, en skýjað austast á landinu. Hiti 5 til 10 stig.

Á þriðjudag: Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og þurrt að kalla. Hiti 3 til 9 stig yfir daginn, mildast á Suðvesturlandi.

Á miðvikudag: Suðaustan kaldi eða strekkingur með lítilsháttar vætu sunnan- og vestanlands, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti 5 til 10 stig.

Á fimmtudag: Gengur mögulega í hvassa austanátt með rigningu sunnantil á landinu, en þurrt fyrir norðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×