Erlent

Ferðabloggararnir lausir úr fangelsi og komnir heim

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jolie King og Mark Firkin á ferðalagi sínu.
Jolie King og Mark Firkin á ferðalagi sínu. Instagram/@thewayoverland
Jolie King og Mark Firkin, ástralskt par sem handtekið var á ferðalagi um Íran í byrjun júlí, hafa verið látin laus úr fangelsi og komið til síns heima. Þriðji Ástralinn, háskólaprófessorinn Kylie Moore-Gilbert, afplánar enn dóm sem hún hlaut í landinu.

Mál parsins vakti mikla athygli eftir að fregnir bárust af því að þau hefðu verið hneppt í varðhald í Tehran í sumar fyrir að fljúga dróna án tilskilinna leyfa.

King og Firkin lögðu af stað í heimsreisu frá áströlsku borginni Perth árið 2017. Þau huguðust ljúka ferðalaginu í London. Þau höfðu greint ítarlega frá ferðalaginu í færslum á Instagram og Youtube mánuðina áður en þau voru handtekin. Aðdáendur þeirra urðu því nokkuð uggandi þegar ekkert heyrðist frá þeim í margar vikur. Í september var svo loks greint frá handtöku þeirra.

Marise Payne utanríkisráðherra Ástralíu tilkynnti í gær að King og Firkin væru nú komin heim til sín en ekki fengust frekari upplýsingar um mál þeirra.

Þá leystu áströlsk yfirvöld íranskan háskólanema úr haldi, sem handtekinn var í fyrra grunaður um að hafa sent bandarísk hernaðargögn til Íran.

Á meðan situr áðurnefnd Moore-Gilbert enn í Evin-fangelsinu í Tehran, þar sem King og Firkin var einnig haldið. Gilbert er sögð hafa verið fangelsuð sumarið 2018 og hafi verið látin sæta einangrunarvist síðan þá. Hún á yfir höfði sér tíu ára fangelsisvist en Payne tjáði blaðamönnum í gær að yfirvöld gerðu nú allt sem í þeirra valdi stæði til að fá hana lausa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×