Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt ábyrgð á 990 milljóna króna láni fyrir Sorpu. Er það meðal annars gert í ljósi aukins kostnaðar við framkvæmdir gas- og jarðgerðarstöð Sorpu. Vegna tafa við fjármögnun seinkar opnun hennar um 6 – 8 vikur.
Stjórnin tók fyrir framvinduskýrslu framkvæmdastjórans vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvarinnar á síðastliðnum fundi. Búið er að steypa 87 prósent af áætluðu steypumagni og telst um 80 prósentum af verkinu lokið. Er áfallinn kostnaður um 2,9 milljarðar króna. Vegna tafa við fjármögnun tækjabúnaðar í móttökustöð er útlit fyrir að ekki verði hægt að taka stöðina í notkun fyrr en í apríl/maí á næsta ári.
Birkir Jón Jónsson, formaður stjórnar Sorpu, segir opnun stöðvarinnar tefjast því gróflega áætlað um 6 - 8 vikur.
„Og það skýrist af því að við höfum verið að leita eftir fjármögnun vegna tækjabúnaðarins. Við höfum meðal annars verið að bíða eftir svörum frá sveitarfélögunum hvað það varðar. En nú liggur það fyrir og ég á von á því að verkið haldi áfram. Það er 80 prósent búið af því og hefur verklega gengið vel. Þannig að ég á von á því að hlutirnir fari að ganga hratt og vel fyrir sig í ljósi þess að fjármögnunin er tryggð.“
Á fundinum samþykkti stjórnin að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gera úttekt á starfsemi félagsins.
„Í ljósi þess hvernig verkið hefur þróast, í ljósi vanáætlana og fleiri þátta, og reyndar í ljósi þess að stjórnin hefur verið að skoða innri málefni félagsins, þá var ákveðið að fá þessa aðila til að gera úttekt á starfsemi félagsins.“
Var fundargerð stjórnar Sorpu tekin fyrir í borgarráði í gær en þar bentu Sjálfstæðismenn á að þeir hefðu greitt atkvæði gegn þessari ábyrgð á láni og að vinnubrögðin væru ekki dæmi um góða og vandaða stjórnsýslu. Vigdís Hauksdóttir, aheyrnarfulltrúi Miðflokksins í borgarráði, kallaði eftir viðamikilli utanaðkomandi rannsókn. Theodóra Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, harmaði á fundi bæjarráðs Kópavogs í gær að nú þurfi að gera enn eina 10 milljóna króna úttektina á Sorpu og í þetta sinn vegna óábyrgrar fjármálastjórnar.