Þessi ummæli lét Itula falla í gær á fjöldafundi stjórnarandstöðuflokka í Oshakati í Namibíu. Greint var frá því að Hage Geingob, sitjandi forseti Namibíu og frambjóðandi SWAPO-flokksins, hafi hlotið endurkjör með 56,3 prósent atkvæða. Itula, sem bauð sig fram sem óháður kom næstur, með 29,3 prósent atkvæða.
Á fundinum í gær lýsti Itula hins vegar því yfir að það væri hann sem væri réttkjörinn forseti, ekki Geingob.
„Ég segi ykkur það einu sinni enn að það var ég sem sigraði kosningarnar. Þið eruð sigurvegarnir og það getur enginn tekið það frá ykkur,“ sagði Itula.
Greint var frá því fyrir helgi að Itula hyggðist kæra niðurstöðu kosninganna þar sem kjörstjórn kosninganna hafi ekki framkvæmt þær á gagnsæjan eða heiðarlegan hátt.

Gefur ríkisstjórninin sex mánuði
Á fundinum í gær sendi Itula skýr skilaboð til kjörstjórnarinnar og forsetans um að hann liti svo á að endanleg niðurstaða kosninganna lægi ekki fyrir.Þá sagði hann einnig að hann gæfi ríkisstjórninni sex mánuði til að endurheimta það fé sem tapast hefur vegna spillingar í landinu. Kosningarnar voru haldnar skugga Samherjamálsins. Embættismenn og aðrir háttsettir í Namibíu eru sakaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja í skiptum fyrir ódýran fiskveiðikvóta. Á meðal þeirra sem sakaðir eru um mútuþægni eru SWAPO-liðarnir Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, og Shacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem sögðu báðir af sér í kjölfar Samherjamálsins og sitja nú í gæsluvarðhaldi.
Þá harmaði hann það að „þúsundir sjómanna“ hefðu misst vinnuna og lífsviðurværi sitt á undanförnum mánuðum.
„Við erum á slæmum stað. Það er búið að selja landið okkar burt. Þið hafið kannski ekki tekið eftir því en mikið af okkar ríkidæmi hefur verið selt burt,“ sagði Itula sem lofaði stuðningsmönnum sínum að réttlætið myndi ná fram að ganga og að nýr forseti myndi taka við völdum fyrir 25. desember.