Innlent

Allt að fjórtán stiga hiti um helgina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Samkvæmt veðurspánni á að vera tiltölulega sólríkt á höfuðborgarsvæðinu um helgina.
Samkvæmt veðurspánni á að vera tiltölulega sólríkt á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir allt að fjórtán stiga hita á Vesturlandi á sunnudag en kaldara verður á Norður- og Austurlandi um helgina.

Í dag er spáð norðanátt, víða átta til þrettán metrum á sekúndu en sums staðar verður hvassara í vindstrengjum við fjöll, einkum austantil á landinu, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands:

„Dálítil él um norðaustanvert landið og þykknar upp með deginum norðvestanlands en þar hangir hann þurr. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnanverðu landinu léttir til með morgninum en stöku skúrir á Suðausturlandi í kvöld. Hiti 6 til 10 stigum yfir daginn, sem er ekki ýkja hlýtt en þar sem skjólsælt er og sólar nýtur verður fínasta veður fyrir útiveru.“

Í textaspánni er síðan getið um eilítið meiri hita sunnan heiða á morgun þar sem verður léttskýjað og sjö til þrettán stiga hiti og á sunnudag er spáð hita frá tveimur stigum austast og upp í fjórtán stig á Vesturlandi.

Veðurhorfur á landinu:

Norðlæg átt 8-15 m/s, hvassast austast á landinu. Léttir til með morgninum um sunnanvert landið, en stöku skúrir á Suðausturlandi í kvöld. Lengst af skýjað norðanlands og dálítil él á norðaustantil. Hiti 1 til 10 stig að deginum, hlýjast syðst.

Norðan 8-15 á morgun og stöku slydduél eða skúrir, en léttskýjað á sunnanverðu landinu og hlýnar lítið eitt.

Á laugardag:

Norðlæg átt, víða 5-10 m/s en norðvestan 10-15 m/s austantil á landinu. Dálitil él og síðar skúrir á Norður- og Austurlandi og hiti 0 til 5 stig. Léttskýjað sunnan heiða með hita 7 til 13 stig að deginum.

Á sunnudag:

Austan 5-10, en 10-15 með suðurströndinni. Bjart með köflum, en skýjað um austanvert landið og lítilsháttar él. Hiti frá 2 stigum austast, upp í 14 stig á Vesturlandi að deginum.

Á mánudag:

Suðaustan 3-10 og víða léttskýjað, en 10-15, skýjað og úrkomulítið syðst á landinu. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á Norður- og Vesturlandi.

Á þriðjudag:

Austlæg átt 8-13 og dálítil rigning sunnan- og austantil, en hægari vindur og skýjað með köflum um landið norðvestanvert. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast vestanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×