Erlent

Náði markmiði sínu en ætlar að ganga áfram og safna meira

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn úr herdeild Moore í seinni heimsstyrjöldinni stóðu heiðursvörð þegar hann náði markmiði sínu.
Hermenn úr herdeild Moore í seinni heimsstyrjöldinni stóðu heiðursvörð þegar hann náði markmiði sínu. Vísir/Varnarmálaráðuneyti Bretlands

Thomas Moore, 99 ára breskur ellilífeyrisþegi og fyrrverandi hermaður, lauk í morgun hundruðustu gönguferðinni yfir garð sinn og náði þar með markmiði sínu um hundrað slíkar ferðir fyrir hundrað ára afmælið seinna í mánuðinum. Í leiðinni ætlaði hann að safna þúsund pundum fyrir Heilbrigðisstofnun Bretlands.

Söfnunin gekk þó vel og var markmiðið hækkað í hálfa milljón punda. Þegar hann náði markmiði sínu í morgun hafði Moore safnað tólf milljónum. Þegar þetta er skrifað hefur hann safnað þrettán og hálfri milljón punda. Það samsvarar tæplega tveimur og hálfum milljarði króna.

Moore segist ætla að halda áfram að ganga áfram á meðan fólk heitir á hann.

Heilbrigðisstarfsmenn hafa sent honum fjölmargar þakkarkveðjur. Þar að auki hafa stjórnmálamenn, íþróttafólk og fjölmargir aðrir hrósað Moore. Jafnvel hefur verið kallað eftir því að hann hljóti riddaratign fyrir framtakið.

Í samtali við Sky News hló Moore yfir því og sagðist aldrei hafa átt von á því. Hann tók þó fram að „Sir Thomas Moore“ hljómaði ansi vel.

Moore tók þátt í seinni heimsstyrjöldinni og þegar hann gekk hundruðustu ferðina í morgun stóðu hermenn úr gömlu herdeild hans heiðursvörð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×