Vigdís Jónsdóttir setti nýtt Íslandsmet í sleggjukasti þegar hún kastaði 62,38 metra á vormóti Fjölnis sem fram fór í Kaplakrika en Frjálsíþróttasambandið segir frá.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir átti gamla metið síðan að hún kastaði 62,16 metra í Borgarnesi á síðasta ári.
Elísabet Rut hafði þá tekið Íslandsmetið af Vigdísi sem var þá búin að eiga það í fimm ár.
Vigdís Jónsdóttir var þarna að slá Íslandsmetið í sleggjukasti í níunda skiptið því hún sló það átta sinnum á árunum 2014 til 2017.
Vigdís var á þeim tíma fyrsta íslenska konan til að kasta sleggjunni yfir sextíu metra. Hún er 24 ára í dag en sló metið fyrst þegar hún var átján ára.
Vigdís hefur verið við nám við University of Memphis háskólann í Bandaríkjunum en kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á vorönnina.
Vigdís hefur greinilega æft mjög vel í COVID-19 hléinu og mætir í svakaformi til leiks. Nú er að sjá hvort að Elísabet Rut Rúnarsdóttir, sem er sex árum yngri en hún, eigi einhver svör við þessu.